Orban segir leikmennina hafa ögrað

Viktor Orban forsætisráðherra Ungverjalands.
Viktor Orban forsætisráðherra Ungverjalands. AFP

Áður en vináttulandsleikur milli Írlands og Ungverjalands hófst í Búdapest á þriðjudag fóru leikmenn írska landsliðsins niður á annað hné til þess að sýna samstöðu gegn kynþáttafordómum, eins og algengt er á knattspyrnuleikjum í Bretlandi. Þessi gjörningur liðsins fékk þó ekki góðar undirtektir áhorfenda á Szusza Ferenc-leikvanginum í Búdapest, en áhorfendur bauluðu á meðan liðsmenn krupu.

Forsætisráðherra Ungverjalands, Viktor Orban, tók upp hanskann fyrir áhorfendur leiksins á blaðamannafundi í dag. „Ef þú ert gestur í landi, þá þarftu að þekkja siði landsins og menningu. Ekki espa upp heimamenn ef þú ert í heimsókn sem gestur,“ sagði Orban á blaðamannafundinum.

„Við getum með engu móti túlkað þennan gjörning liðsins á nokkurn annan hátt en að verið sé að ögra. Út frá okkar menningu séð, er þetta ögrun,“ sagði Orban.

Leikmenn ensku úrvalsdeildarinnar tóku upp á því á síðustu leiktíð að krjúpa fyrir hvern leik, til að mótmæla kerfisbundinni mismunun gegn svörtu fólki. Morðið á George Floyd og mótmæli víða um heim í kjölfar þess voru kveikjan að uppátækinu.

Úr leik Ungverjalands og Íslands á EM 2016
Úr leik Ungverjalands og Íslands á EM 2016 AFP

Þælahald dregið inn í umræðuna

Orban sagði þó túlkun þess að fara niður á annað hnéð ávallt bundið menningu hvers lands fyrir sig.

„Þegar við skoðum hverjir byrjuðu að fara niður á hnéð, frá hvaða landi þetta kemur, þá sjáum við að um er að ræða lönd sem á einhverjum tímapunkti í sögu sinni stunduðu þrælahald. Það hafa Ungverjar aldrei gert.“

Stephen Kenny, þjálfari írska landsliðsins, kallaði baul áhorfenda leiksins „óskiljanleg“.

„Þetta hlýtur að skemma fyrir Ungverjum á EM. Þetta eru mikil vonbrigði og endurspeglast illa fyrir Ungverja og stuðningsmenn þeirra,“ sagði Kenny.

mbl.is

Bloggað um fréttina