Rannsakar tóftir frá víkingaöld

Finstad við rannsóknir á einum tóftanna í Bøver-dalnum. Þar eru …
Finstad við rannsóknir á einum tóftanna í Bøver-dalnum. Þar eru leifar af um tuttugu húsum, nokkrum þeirra langhúsum, og hefur Finstad hér teiknað inn á ljósmynd hvernig eitt þeirra gæti hafa litið út fyrir þúsund árum eða meira. Ljósmynd/Espen Finstad

Espen Finstad, fornleifafræðingur hjá Innlandet-fylki í Noregi, vinnur nú að rannsóknum og uppgreftri tófta allt að tuttugu húsa í Bøver-dalnum í Lom, milli Breheimen og Jotunheimen. Virðist þar vera um heilt þorp að ræða og hafa nokkur húsanna verið langhús, það stærsta um 100 fermetrar, og benda aldursgreiningar kola úr eldstæðum til árabilsins 700 til 1100, víkingatímabilsins svonefnda.

„Mikilvægt er að leiða í ljós hvort hér hafi verið búið allt árið,“ útskýrir Finstad fyrir norska ríkisútvarpinu NRK, en sá sem fann hluta þessara gömlu bústaða á sínum tíma er Reidar Marstein, áhugafornleifafræðingur sem þekkir hverja þúfu á svæðinu. Það var árið 2011, en það er fyrst nú sem hægt er að hefja rannsóknir á þeim vegna þess hve mikið jöklar í dalshlíðunum hafa hopað síðustu ár.

Verslun og vöruflutningar

Húsin hafa staðið hátt uppi í dalshlíðinni og þaðan verið stórfenglegt útsýni að fjallstindunum Loftet og Skagsnebb, sem hvorir tveggja eru vinsælir áfangastaðir göngufólks. Fornleifafræðingar hafa um árabil verið við rannsóknir í Bøver-dalnum, meðal annars á gamalli vöruflutningaleið yfir fjalllendið í kring, þar sem fundist hafa beinagrindur trússhesta, fóðurflutningasleðar sem þeir drógu og annar búnaður.

Fornleifafræðingar við vinnu á vettvangi í fyrrahaust. Vegna hops jökla …
Fornleifafræðingar við vinnu á vettvangi í fyrrahaust. Vegna hops jökla er nú unnt að ganga til rannsókna í dalnum á svæðum sem áður voru undir ís. Ljósmynd/Innlandet-fylki

Nokkur umferð hefur verið um svæðið í Innlandet til forna og finnast þar merki um fundarstaði, verslun og vöruflutninga, enda til ritaðar ferðalýsingar úr Norður-Guðbrandsdal frá síðari tímum, 18. öld, með vangaveltum um forna búsetustaði.

Finstad kveður verkefnið mjög spennandi, en hann hefur frá því 2011 stjórnað stærra rannsóknaverkefni á staðnum sem gengur undir nafninu Secrets of the Ice og hefur náð alþjóðlegri athygli fornleifafræðinga. Meðal forvitnilegra gripa, sem fundist hafa undir formerkjum leyndardóma íssins, er göngustafur með rúnaáletrun sem talinn er vera frá 11. öld.

Segir Finstad húsatóftirnar þýðingarmikið stykki í fræðilegu púsluspili um mannabústaði og athafnir í Innlandet, fylkinu sem áður hét Hedmark. „Þetta gefur okkur greinilegri mynd af því fólki sem hér bjó og ekki síður bendir margt til þess að hér hafi verið bjargræði, fólkið hafi getað lifað af veiðum og kannski verslun,“ segir hann.

Göngustafurinn með rúnaáletruninni sem fannst í dalnum er talinn vera …
Göngustafurinn með rúnaáletruninni sem fannst í dalnum er talinn vera frá 11. öld. Finstad telur miklar mannaferðir hafa verið um svæðið á víkingatímabilinu, verslun og veiðar. Ljósmynd/Vegard Vike/Kulturhistorisk Museum

Í dalnum hafi að líkindum bændur búið í félagi við veiðimenn og hafi meðal annars verið verslað með feldi af hreindýrum, kjöt og horn dýranna og vörur verið fluttar til og frá dalnum yfir fjöll og jökla sem hann umluktu úr vestri, norðri og austri.

Nú liggi fyrir að ákvarða stærð húsatóftanna betur og tímasetja nánar. „Eftir nokkur ár verðum við öllu vísari um hvað hér hefur verið,“ segir fornleifafræðingurinn að lokum.

NRK

NRKII (vöruflutningaleiðir rannsakaðar í fyrra)

Grein úr alþjóðlega fornleifafræðiritinu Antiquity um rannsóknarverkefnið Secrets of the Ice, apríl 2020)

mbl.is