Samtök Navalnís úrskurðuð öfgafull

Alexei Navalní í febrúar.
Alexei Navalní í febrúar. AFP

Dómstóll í Moskvu, höfuðborg Rússland, hefur úrskurðað að pólitísk samtök stjórnarandstæðingsins Alexei Navalnís, sem situr nú í fangelsi, séu „öfgafull“ og hefur starfsemi þeirra verið bönnuð í Rússlandi.

Þetta er enn eitt áfallið fyrir stjórnarandstöðuna í landinu fyrir komandi þingkosningar.

Úrskurðurinn gæti leitt til endaloka samtaka Navalnís sem hafa barist gegn spillingu á hæstu stigum stjórnkerfisins.

„Það var komist að þeirri niðurstöðu að þessi samtök dreifðu ekki aðeins upplýsingum með hatri og fjandskap í garð ráðamanna heldur einnig öfgafullum skilaboðum,“ sagði talsmaður saksóknara, Alexei Zhafyarov.

Navalní, sem er 45 ára, var handtekinn fyrr á þessu ári er hann sneri aftur til Rússlands frá Þýskalandi þar sem hann var að jafna sig eftir að eitrað hafði verið fyrir honum.

Í færslu á Instagram sagði hann að stuðningsmenn sínir þyrftu að breyta starfsaðferðum sínum og hvatti hann þá til að „aðlagast“.

„En við munum ekki hverfa frá markmiðum okkar og hugmyndum. Þetta er okkar land og við eigum ekkert annað,“ sagði hann.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert