Uppstokkun á ríkisstjórn í kortunum

Firmin Ngrebada fráfarandi forsætisráðherra Mið-Afríku-Lýðveldisins.
Firmin Ngrebada fráfarandi forsætisráðherra Mið-Afríku-Lýðveldisins. AFP

Forsætisráðherra Mið-Afríkulýðveldisins, Firmin Ngrebada tilkynnti í dag um afsögn sína sem forsætisráðherra og að ríkisstjórn hans skyldi leyst upp. Liggur því fyrir að enduruppstokkun muni eiga sér stað í stjórnmálunum þar ytra.

Forsætisráðherrann tilkynnti um afsögn sína á Twitter, en haft var eftir talsmanni forseta landsins, Faustin Archange Touadera, að líkur væru á því að Ngrebada fengi stjórnarmyndunarumboð að nýju og gæti myndað nýja ríkisstjórn.

„Við munum fá á hreint á næstu klukkutímunum hvort að forsetinn kjósi að halda forsætisráðherranum við völd,“ sagði talsmaður forsetans.

Vel tengdur forsetanum

Ngrebada er fyrrum starfsmannastjóri forsetans og hefur hann verið við völd síðan í ársbyrjun 2019. Mið-Afríkulýðveldið er samkvæmt mælingum sameinuðu þjóðanna næstminnst þróaða ríki heims. Erfitt ástand hefur verið í landinu undanfarin ár, en borgarastyrjöld skall á árið 2013 og hefur landið ekki átt sjö dagana sæla síðan.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert