Vaknaði úr dái eftir tíu mánuði

Cristina Rosi og Gabriele Succi.
Cristina Rosi og Gabriele Succi. Facebook/Cristina Rosi

Ítölsk kona vaknaði nýverið eftir tíu mánaða dá. Cristina Rosi, 37 ára, var komin sjö mánuði á leið þegar hún fékk hjartaáfall í júlí á síðasta ári. 

Dóttir Rosi, Caterina, var tekin með bráðakeisaraskurði í kjölfarið, en Rosi féll í dá og var talið að hún hafði orðið fyrir heilaskaða. Hún hefur nú vaknað úr dáinu og er byrjuð að tala að sögn Gabriele Succi eiginmanns hennar. 

„Við bjuggumst ekki við þessu, það var mikil gleði eftir allar þessar þjáningar,“ sagði Succi. 

Rosi var flutt á sjúkrahús í Austurríki í apríl til þess að fá sérfræðiþjónustu. Hópfjáröflun fjármagnaði flutningana og þjónustuna sem hún fékk í Austurríki. Nú tekur við endurhæfing þar í landi. 

Dóttir hjónanna var í fleiri mánuði á sjúkrahúsi vegna súrefnisleysis við fæðinguna. Ekki liggja fyrir frekari upplýsingar um líðan hennar. 

Frétt BBC.

mbl.is