Dæmd fyrir að kyrkja syni sína

Bræðurnir Gabriel og Mikael voru eins árs og sjö ára …
Bræðurnir Gabriel og Mikael voru eins árs og sjö ára gamlir þegar móðir þeirra, Jeanette Dørmænen, myrti þá á heimili þeirra í Lørenskog aðfaranótt 19. júlí í fyrra. Hún hlaut 21 árs dóm í gær og taldi héraðsdómur hana hafa lagt á ráðin um ódæðið og sýnt styrkan og einbeittan vilja á verknaðarstundu. Ljósmynd/Úr einkasafni

Jeanette Dørmænen, 36 ára gömul norsk kona, hlaut í gær 21 árs fangelsisdóm í Héraðsdómi Romerike og Glåmdal fyrir að ráða sonum sínum tveimur, Mikael, sjö ára, og Gabriel, eins árs, bana á heimili þeirra í Lørenskog, skammt frá Ósló, 19. júlí í fyrrasumar.

Dørmænen var enn fremur gerð refsing fyrir að gefa lögreglu vísvitandi rangar upplýsingar og taka ófrjálsri hendi 115.000 krónur, jafnvirði tæplega 1,7 milljóna íslenskra króna, af sparireikningi eldri sonarins. Auk fangelsisrefsingarinnar er henni gert að greiða föður drengjanna 692.000 krónur, jafnvirði tíu milljóna íslenskra króna, í miskabætur og er svipt erfðarétti eftir þá.

Taldi héraðsdómur sannað svo óyggjandi væri, að Dørmænen hefði lagt á ráðin fyrir fram og gengið skipulega til verks þegar hún kyrkti syni sína í svefni aðfaranótt 19. júlí. Hún settist svo niður og skrifaði fjögur sjálfsvígsbréf til ættingja áður en hún veitti sjálfri sér töluverða áverka undir morgun og gerði svo tilraun til að kveikja í rúmdýnum sonanna.

Reyndi að koma sök á föðurinn

Sjálfvirkt úðarakerfi í íbúðinni fór í gang og barst slökkviliði tilkynning um hugsanlegan eld þar klukkan 08:30 að morgni sunnudagsins 19. júlí. Þegar slökkvilið og lögregla komu á vettvang hittist Dørmænen fyrir á vettvangi og var í miklu uppnámi. Hélt hún því fram að faðir barnanna, sem búsettur var annars staðar, hefði komið á heimilið, myrt syni sína og veitt henni áverkana.

Þegar faðirinn kom akandi að heimili barnsmóður sinnar, eftir að hafa fengið veður af hugsanlegum eldsvoða í Lørenskog í fjölmiðlum og reynt árangurslaust að ná tali af henni í síma, var hann umsvifalaust handtekinn, grunaður um verknaðinn.

Ekki leið þó á löngu uns böndin bárust að Dørmænen sjálfri og tilkynnti lögregla þegar á mánudeginum að faðirinn lægi ekki lengur undir grun í málinu. Hafði Dørmænen þá þegar verið vistuð á geðdeild vegna andlegs ástands hennar.

Kvað ákærðu hafa skort geðrænt sakhæfi

Við aðalmeðferð málsins hélt Dørmænen því þráfaldlega fram, að hún myndi ekkert eftir atburðum aðfaranætur 19. júlí, en játaði að engum væri til að dreifa nema henni sjálfri þegar rætt var hver hefði ráðið drengjunum bana.

Annar verjenda hennar, Gard Andre Lier, hélt því fram að verknaður ákærðu hefði ekki getað verið vandlega skipulagður fyrir fram þar sem hún hefði verið miður sín andlega nóttina sem hún lét til skarar skríða. Til að mynda hefði hún skrifað mörg sjálfsvígsbréf til ættingja sinna, en að lokum heykst á að stytta sér aldur þegar á hólminn var komið. Þá hefði hún greint frá því að hafa hvort tveggja séð synina og fengið skilaboð frá þeim meðan hún var vistuð á geðdeild eftir voðaatburðinn.

Dørmænen hefði á verknaðarstundu verið þannig stödd andlega, að hún skildi ekki afleiðingar gjörða sinna og bæri réttinum því að sýkna hana af ákæru og vista hana þess í stað á viðeigandi stofnun uns ástand hennar batnaði.

Styrkur og einbeittur vilji

Geðlæknar, sem lögðu mat á ástand ákærðu fyrir og við rekstur málsins fyrir héraðsdómi, töldu hana réttilega ekki muna atburði næturinnar örlagaríku, andleg varnarviðbrögð (n. psykisk forsvarsmekanisme) hennar hefðu útilokað þær minningar algjörlega. Pål Grøndahl, sálfræðingur sem kom fyrir réttinn, sagði enn fremur, að þótt freistandi væri að draga þá ályktun að manneskja þyrfti að vera alvarlega veik andlega til að fremja umræddan verknað, væri það þó ekki alltaf tilfellið, og komst héraðsdómur að lokum að þeirri niðurstöðu að Dørmænen hefði ekki skort geðrænt sakhæfi þegar hún banaði sonum sínum.

„Ákærða hafði tíma og ráðrúm til að taka yfirvegaða ákvörðun og hún einsetti sér að ljúka verknaðinum,“ segir í rökstuðningi héraðsdóms þar sem einnig er lögð áhersla á að hún hafi myrt annað barnið í einu. „Það sýnir styrkan og einbeittan vilja til að fremja verknaðinn,“ segir þar enn fremur.

Ane Evang héraðssaksóknari, sem sótti málið fyrir hönd ákæruvaldsins, kveður niðurstöðu dómsins í samræmi við þær refsikröfur sem hafðar voru uppi.

John Christian Elden, réttargæslumaður föðurins, var stuttorður við norska dagblaðið VG í gær og sagði dóminn sterkan og í samræmi við sýn þeirra skjólstæðings hans á málið.

Hinn verjandi Dørmænen, Gunhild Lærum, kvaðst hafa lesið dóminn og hygðist hún í dag funda með skjólstæðingi sínum á sjúkrahúsinu um næstu skref í málinu.

NRK

VG

TV2

Aftenposten

Dagbladet

mbl.is