Fjölskylda á flótta vegna hvarfs ungrar konu

Mynd úr safni.
Mynd úr safni. AFP

Ættingjar 18 ára konu eru grunaðir um morð eftir að konan hvarf af heimili fjölskyldu sinnar á norðurhluta Ítalíu. 

Ítalska lögreglan segir að fjölskylda Saman Abbbas hafi krafist þess að hún ferðaðist til Pakistan og gengi í hagkvæmnishjónaband. Saman hafði neitað því. 

Frændi Saman hefur verið handtekinn í Frakklandi og framseldur til Ítalíu. Lýst hefur verið eftir tveimur öðrum frændum hennar, en talið er að foreldrar Saman hafi farið til Pakistan. 

Ættingjarnir fimm eru allir grunaðir um að hafa myrt Saman og losað sig við lík hennar sem hefur ekki fundist. 

Faðir Saman fullyrti við ítalska fjölmiðla skömmu eftir hvarf dóttur sinnar að hún hefði ferðast til Belgíu. Ítalskir fjölmiðlar greina frá því að Saman hafði notið félagsþjónustu frá því í október, en snúið aftur á heimili fjölskyldu sinnar í lok apríl. Saksóknarar telja að fjölskylda Saman hafi beitt brögðum til þess að fá hana aftur heim. 

Lögregla hefur leitað að Saman síðan í byrjun maí og hafa einblínt á svæðið umhverfis heimili fjölskyldunnar í Novellara, sem er nærri Parma. Þá hefur lögregla gert opinbera upptöku úr öryggismyndavél sem sýnir þrjá hinna grunuðu ganga með skóflur, bláan poka og kúbein. Upptökur úr öryggismyndavélum sína Saman ganga á milli foreldra sína frá heimilinu daginn eftir, en talið er að hún hafi verið myrt síðar þann dag. 

Frétt BBC. 

mbl.is