Biden segist draga skýrar línur fyrir Pútín

Biden á leiðtogafundi Atlantshafsbandalagsins.
Biden á leiðtogafundi Atlantshafsbandalagsins. AFP

Joe Biden forseti Bandaríkjanna hefur heitið því að setja skýrar línur fyrir Vladimír Pútín Rússlandsforseta á leiðtogafundi þeirra tveggja í Genf á miðvikudaginn.

Þetta kom fram í máli Bidens eftir leiðtogafund Atlantshafsbandalagsins í dag. Biden lýsti Pútín sem klárum en harðskeyttum leiðtoga og „verðugum keppinaut“. Biden sagðist ekki vera á höttunum eftir deilum við Rússa en að Bandaríkin myndu bregðast við létu Rússar ekki af skaðvænlegum aðgerðum.

Kallaði Biden framagosa

Pútín kallaði Biden framagosa sem hefði gert stjórnmál að ævistarfi í viðtali við NBC. Hann gerði þess vegna ráð fyrir færri hvatlyndisákvörðunum í forsetatíð Bidens en hann hefði vanist í tíð forvera hans Donalds Trumps. Þótt Pútín væri hlynntur þeirri yfirvegun hrósaði hann Trump og sagði hann hæfileikaríkan mann með litríkan persónuleika.

mbl.is