G7-ríkin láti af afskiptum af Kína

Boris Johnson, forsætisráðherra Bretlands og Joe Biden, forseti Bandaríkjanna á …
Boris Johnson, forsætisráðherra Bretlands og Joe Biden, forseti Bandaríkjanna á leiðtogafundi G7 ríkjanna sem fór fram í síðustu viku. AFP

Kínversk yfirvöld hafa sakað G7-ríkin um pólitísk bellibrögð í kjölfar ýmissa yfirlýsinga landanna eftir sameiginlegan leiðtogafund í síðustu viku. 

BBC greinir frá.

Í sameiginlegri yfirlýsingu ríkjanna eftir þriggja daga leiðtogafund hvöttu leiðtogarnir Kína til þess að „virða mannréttindi og grundvallarfrelsi“.

Vísað var sérstaklega til ofsókna á Úígúra-múslimum í Xinjiang-héraði í Kína og valdbeitingu gegn sjálfstæðissinnuðum mótmælendum í Hong Kong. 

Sendiráð Kína í Bretlandi segir ofangreind atriði vera tilhæfulausar ásakanir. „Hættið að úthúða Kína, hættið afskiptum af innanríkismálum Kína og hættið að skaða kínverska hagsmuni,“ sagði upplýsingafulltrúi í sendiráði Kína í Bretlandi, hvar G7-leiðtogafundurinn fór fram.

Yfirlýsing G7-ríkjanna, sjö helstu iðnríkja heims, ávarpar flest stærri utanríkismál heimsins, þar á meðal áheit um að binda enda á heimsfaraldur Covid-19, sameiginlegar aðgerðir gegn hlýnun jarðar sem og málefni Kína. 

G7-ríkin eru Kanada, Frakkland, Þýskaland, Ítalía, Japan, Bretland og Bandaríkin. 

mbl.is