„Svona bréf á enginn að fá“

NAV í Indre Østfold liggur undir ámæli eftir að öryrki …
NAV í Indre Østfold liggur undir ámæli eftir að öryrki fékk þaðan fjögurra blaðsíðna bréf þar sem honum var synjað um aðstoð við að greiða rafmagnsreikning í vanskilum og bent á að fá gefins grill og drekka vatn úr krananum auk þess sem hann væri ekki með börn á framfæri og gæti því prísað sig sælan. Félagsmálaráðherra bregst ókvæða við. Ljósmynd/Snapshot/Colourbox

Tæplega sextugum öryrkja í Indre Østfold í Noregi, skammt suður af Ósló, barst bréf frá norsku vinnumála- og tryggingastofnuninni NAV í síðustu viku sem á örskömmum tíma hefur náð þjóðarathygli auk þess sem Torbjørn Røe Isaksen félagsmálaráðherra sagði í dag við norska fjölmiðla að stofnunin yrði hreinlega að gyrða sig í brók.

Forsaga málsins er sú að öryrkinn, 59 ára gamall maður sem var með eigin rekstur um áratuga skeið, en fékk lungnakrabbamein árið 2011, missti í kjölfarið annað lungað og hefur verið óvinnufær síðan, komst á vonarvöl fjárhagslega þegar bæturnar hrukku ekki til að koma honum gegnum mánuðinn.

Var maðurinn kominn í vanskil með rafmagn og búið að rjúfa straum á heimili hans. Til að fá rafmagnið aftur var honum uppálagt að reiða fram 9.000 norskar krónur, jafnvirði 131.400 íslenskra króna, en hann átti þá 60 krónur á reikningi sínum, 876 umreiknað til íslenska miðilsins, og bað NAV um neyðaraðstoð svo hann mætti njóta rafmagns aftur og gæti eldað sér mat. Hafði hann þá fengið neyðarhjálp frá stofnuninni sem nam 600, eða 8.760 íslenskum, á dag.

Ekki háður hita til að lifa af

Fulltrúinn, sem svaraði ákalli hans, synjaði hins vegar um opinberan styrk fyrir rafmagnsskuldinni og það í fjögurra blaðsíðna löngu þéttskrifuðu bréfi með rökstuðningi og ráðleggingum sem meirihluti norsku þjóðarinnar hefur nú lesið, aðeins fáeinum dögum eftir að það barst viðtakanda, en systir hans lagði það út á samfélagsmiðla og fékk þar gríðarleg viðbrögð. Mesta athygli hefur sú klausa NAV-bréfsins hlotið sem svo hljóðar í íslenskri þýðingu:

Núna er sumar og spáð hlýju og góðu veðri yfir langt tímabil. Þar með ertu ekki háður því að geta hitað íbúðina þína upp til að lifa af. Þar að auki gefst núna möguleiki á að grilla mat utandyra. Kannski geturðu fengið lánað grill ef þú átt ekki eitt slíkt sjálfur, þannig að þú getir matreitt án þess að vera háður rafmagni. Núna, 09.06.21, eru mörg grill auglýst gefins í nágrenni við þig á finn.no [sölu- og markaðstorg á lýðnetinu]. Þá geturðu drukkið vatn eða blandað þér saft úr krananum svo þú þarft engan ísskáp til að fá þér svaladrykk þessa góðviðrisdaga. Einnig ertu einhleypur og ekki með börn á heimilinu sem taka þarf tillit til við þínar aðstæður. Kannski áttu þá kunningja sem geta lánað þér peninga þar til þú færð bætur næst svo þú getir gert rafmagnsreikninginn upp áður en bæturnar verðar borgaðar út 17.06.21.

Rikke Haagensen, sem veitir NAV í Indre Østfold forstöðu, hefur verið á síðum flestra stærri fjölmiðla Noregs í dag þar sem hún hefur beðist afsökunar á að skjólstæðingur stofnunarinnar hafi fengið bréf sem þetta og lýst því yfir, að NAV skuli meðhöndla alla sína viðskiptavini af virðingu og svona lagað eigi hreinlega ekki að geta gerst.

Þegar röðin var komin að mbl.is var Haagensen greinilega orðin úrvinda í moldviðrinu og búin að rétta Mimi Kopperud Slevigen upplýsingafulltrúa keflið sem hafði eftirfarandi um málið að segja:

„Við getum ekki tjáð okkur um einstök mál, en núna munum við fara ofan í saumana á öllum verklagsreglum sem snúa að útsendum erindum og búa svo um hnútana hér innanhúss að ekki sé vegið að íbúum hér [í Indre Østfold] í þeim orðsendingum sem frá okkur fara.“

Ætlast til að NAV fylgi málinu eftir

Torbjørn Røe Isaksen félagsmálaráðherra barst skrifleg fyrirspurn á Stórþinginu vegna bréfsins, sem nú gengur almennt undir heitinu „NAV-bréfið“ í norskum fjöl- og samfélagsmiðlum. Fyrirspurnin kom frá Audun Lysbakken, formanni Sósíalíska vinstriflokksins, SV, sem innti ráðherra eftir viðbrögðum.

„Svona getur maður ekki tjáð sig,“ segir Isaksen í samtali við TV2 í dag og á við NAV. „Ég skil það vel að fólk bregðist ókvæða við. Það geri ég sjálfur. Svona bréf á enginn að fá. Ég ætlast til þess að NAV fylgi þessu máli eftir [...] Ég mun leita svara við því hjá NAV um hvað komi upp úr kafinu þegar þar verður farið ofan í saumana á málinu. Eftir það verða haldnir reglulegir fundir þar sem gengið verður úr skugga um að sveitarfélagahluti NAV haldi sig innan þeirra marka sem sett eru,“ segir ráherra.

Sárnar tónninn í bréfinu

„Ég var á vinnumarkaði í 40 ár og greiddi skatt. Ég hef aldrei beðið um neitt frá yfirvöldum,“ segir viðtakandi bréfsins í samtali við norska ríkisútvarpið NRK, en hann kýs að gæta nafnleyndar.

„Það sem mér sárnar er tónninn í synjuninni [bréfinu]. Betra hefði verið ef þeir hefðu sleppt þessum rökstuðningi, bara sagt nei,“ segir hann og gagnrýnir einnig að fyrst skrifi þjónustufulltrúi bréfið, en auk þess leggi fagstjóri hjá stofnuninni, eða fagkoordinator, blessun sína yfir það áður en það er sent viðtakanda.

Hann segir frá því að honum hafi áður verið neitað um örorkubætur, en síðar fengið hálfar bætur frá marsmánuði í fyrra.

„Þremur eða fjórum mánuðum eftir það fékk ég hjartaáfall og þurfti að fá gangráð. Ég sótti þá um að komast á fullar bætur og fjórum mánuðum síðar var það samþykkt.“ Biðtíminn eftir afgreiðslu erindis hans hafi valdið honum búsifjum og þá hafi vanskilin byrjað að hlaðast upp, þar á meðal rafmagnsreikningarnir ógreiddu sem segja má að hafi verið kveikja þessa máls.

„Mér fannst niðurlægjandi að lesa svarið frá NAV. Sérstaklega hlutann þar sem mér var sagt að útvega mér grill. Ég trúði því bara ekki að þetta væri raunverulegt,“ segir maðurinn.

Hrein vanvirðing

Saxe Frøshaug, bæjarstjóri í Indre Østfold, kveðst með böggum hildar vegna málsins. „Það sem hér er afhjúpað er slæmt á alla kanta og ekki eitthvað sem við hér í sveitarfélaginu viljum vera þekkt fyrir,“ segir hann við NRK.

Er þetta hefðbundin afgreiðsla mála hjá NAV hér í bænum?

„Nei, þannig á það ekki að vera. Allt annars konar staðlar eiga að liggja málsmeðferð NAV til grundvallar. Við höfum hafið rannsókn á verkferlum þar, við þetta má ekki búa, að okkar eigin íbúum sé svarað svona,“ segir Frøshaug.

Hvað segirðu við því að manni, sem beiðist félagslegrar aðstoðar við að greiða rafmagnsreikninginn sinn, sé bent á að útvega sér grill í staðinn?

„Mér þykir það mjög miður. Þetta er hrein vanvirðing. Í samfélagi nútímans er algjörlega útilokað að vera án rafmagns. Það sem nú skiptir máli er að við tryggjum að þetta endurtaki sig ekki og að slíkar aðstæður komi ekki upp aftur,“ segir bæjarstjóri að lokum, en maðurinn sem falaðist eftir fjárhagsaðstoðinni hefur nú fengið straum á heimili sitt á nýjan leik.

NRK

VG

TV2

ABC Nyheter

Indre24

mbl.is