Gera bitcoin að opinberum gjaldmiðli

Nayib Bukele, forseti El Salvador.
Nayib Bukele, forseti El Salvador. AFP

Nayib Bukele, forseti El Salvador, hefur ákveðið að gera rafmyntina bitcoin að opinberum gjaldmiðli landsins. Þar með verður El Salvador fyrsta landið í heiminum til að gera rafmyntina að opinberum gjaldmiðli. Ákvörðunin fór hratt í gegnum þingið þar ytra, sem samanstendur af flokksmönnum Bukele, og var samþykkt án þess að færð hafi verið sérstök rök fyrir henni gagnvart íbúum landsins.

Ákvörðunin gæti ekki hafa verið tekin á viðkvæmari tíma, segir í umfjöllun fréttastofunnar El País. Netglæpamenn eru sífellt að sækja í sig veðrið þegar kemur að hindrun á aðgangi að upplýsingatæknikerfum eða gagnastuldri. Netárásir þeirra, sem lamað hafa heilar atvinnugreinar, byggja margar á rafmyntinni sem þeim hefur þótt eftirsóknarverðust, rafmyntinni bitcoin.

Umdeild ákvörðun

Bukele tilkynnti um breytinguna á ráðstefnu um rafmyntir í Miami á laugardag en það var þá sem margir íbúar El Salvador heyrðu fyrst af þessum breytingum sem mun brátt breyta lífi þeirra.

„Þetta mun skapa störf og hjálpa þeim þúsundum íbúa sem standa nú utan hins formlega efnahagskerfis að komast inn í kerfið,“ segir Bukele á ráðstefnunni.

Ákvörðunin er umdeild þar sem hún þykir illa ígrunduð og í ljósi þess hve lítinn þátt íbúar El Salvador áttu í því að hún var tekin.

Eduardo Escobar, forstöðumaður félagssamtakanna Acción Ciudadana, er einn þeirra sem hefur gagnrýnt ákvörðunina. Að hans mati þjónar ákvörðunin þeim tilgangi að afvegaleiða umræðuna um vandamál sem yfirvöld í El Salvador hafa verið beðin að svara fyrir í gegnum tíðina og eins að betrumbæta ímynd forsetans á alþjóðlegum vettvangi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert