Ikea í Frakklandi dæmt fyrir njósnir

Ikea í Frakklandi hefur verið dæmt fyrir njósnir gagnvart starfsfólki.
Ikea í Frakklandi hefur verið dæmt fyrir njósnir gagnvart starfsfólki. AFP

Dómstóll í Frakklandi fundið Ikea þar í landi sekt um ólöglegar njósnir með því að hafa sett upp njósnakerfi til að fylgjast með starfsfólki sínu sem og umsækjendum um starf hjá húsgagnaversluninni í fjölmörg ár. Þá var þjónusta keypt af einkaspæjara og lögreglugögn notuð. 

Franska Ikea var sektuð um eina milljón evra sem samsvarar um 147 milljónum króna. Fyrrverandi framkvæmdastjóri Ikea í Frakklandi, Jean-Louis Baillot, var dæmdur í tveggja ára skilorðsbundið fangelsi og til þess að greiða 50 þúsund evra sekt, eða um 7,4 milljónir króna. 

Dómurinn sneri að vinnslu persónuupplýsinga sem fengnar voru með ólögmætum hætti. Upphafleg ákæra var alvarlegri og sneri að fjöldanjósnum. 

Baillot, sem var framkvæmdastjóri á árunum 1996 til 2002, neitaði ásökunum um nokkurt ólöglegt athæfi. Njósnirnar sem teknar voru fyrir í réttarhöldunum fóru að mestu fram árin 2009 til 2021 en saksóknari sagði njósnakerfið hafa verið sett upp í tíð Baillors.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert