Sagði af sér eftir óviðeigandi golfhring

Roleau baðst afsökunar á dómgreindarbresti sínum.
Roleau baðst afsökunar á dómgreindarbresti sínum. AFP

Næstæðsti yfirmaður kanadíska hersins hefur sagt af sér störfum eftir að hafa spilað golf með fyrrverandi yfirmanni kanadíska hersins, sem sakaður hefur verið um ýmis kynferðisbrot.

Mike Rouleau undirforingi segist hafa boðið Jonathan Vance herforingja í golf til þess að tryggja að hann hefði það sem best. Rouleau fer með yfirumsjón með rannsókn á kynferðisbrotum þess síðarnefnda.

Í frétt BBC segir að samkvæmt Rouleau hafi þeir tveir ekki rætt sín á milli neitt um rannsóknina sjálfa, en hann viðurkenndi þó að hittingur þeirra hafi ýtt undir vantraust í garð kanadíska hersins.

Vance var ásakaður um kynferðisbrot af majór Kellie Brennan og annarri konu sem kom ekki fram opinberlega undir nafni. Herlögreglan í Kanada hefur ásakanir kvennanna til rannsóknar.

Brennan kom fyrir kanadíska þingnefnd fyrr á árinu og lýsti því, svo að tekið var eftir, hvernig Vance feðraði hana að tveimur börnum án þess að gangast við þeim og hvernig hann teldi sjálfan sig vera „ósnertanlegan“.

mbl.is