15 ára fangelsi fyrir að myrða og borða lík móður sinnar

Sánchez var handtekinn í febrúar 2019.
Sánchez var handtekinn í febrúar 2019. Ljósmynd/Spænska lögreglan

Spænskur karlmaður hefur verið dæmdur í 15 ára fangelsi fyrir að myrða móður sína og leggja líkamsleifar hennar sér til munns. 

Alberto Sánchez Gómez, 28 ára, var handtekinn árið 2019 eftir að lögregla fann líkamshluta, sem sumir voru í plastboxum, í nágrenni heimilis hennar. 

Dómari í máli Sánchez hafnaði þeirri málsástæðu hans að hann hefði verið í geðrofi þegar hann framdi morðið. 

Sánchez mun afplána 15 ára fangelsisdóm fyrir morðið og fimm mánuði til viðbótar fyrir ólögmæta meðferð líks. Honum var einnig gert að greiða bróður sínum miskabætur. 

Lögregla fór að heimili Maríu Soledad Gómez, sem var á sjötugsaldri, í febrúar 2019 eftir að vinkona hennar greindi lögreglu frá áhyggjum sínum af velferð hennar. Fram kom í máli saksóknara fyrir dómi að Sánchez, sem var þá 26 ára, hefði kyrkt móður sína eftir rifrildi þeirra á milli. Hann aflimaði lík hennar síðan og át líkamshluta yfir tveggja vikna tímabil í kjölfar morðsins. Þá á hann einnig að hafa gefið hundi sínum líkamsparta móður sinnar. 

Fram kemur á BBC að Sánchez hafi verið á sakaskrá vegna fyrra ofbeldis gagnvart móður sinni og hann hafi brotið nálgunarbann þegar morðið var framið. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert