Leyniskyttur voru tilbúnar að skjóta

Skömmu áður en leikur Þýskalands og Frakklands var flautaður í …
Skömmu áður en leikur Þýskalands og Frakklands var flautaður í gang í gær, flaug aðgerðasinni inn á völlinn og slasaði viðstadda. AFP

Aðgerðasinni á vegum Greenpeace-samtakanna slapp naumlega við að vera skotinn niður af leyniskyttum er hann sveif inn á fótboltavöll rétt áður en flautað var til leiks Þýska­lands og Frakk­lands á EM í knatt­spyrnu í gær, segir Joachim Herrmann, innanríkisráðherra Bæjaralands í Þýskalandi, við fréttastofu AFP.

Að sögn ráðherranns voru leyniskyttur meðvitaðar um fallhlífarstökkvarann og tilbúnar að skjóta hann niður ef þyrfti.

„Ef lögreglan hefði komist að þeirri niðurstöðu að um hryðjuverkaárás væri að ræða hefði maðurinn borgað fyrir það með lífi sínu,“ segir Hermann.

Þá segir hann stórt merki Greenpeace-samtakanna á gulri fallhlíf mannsins hafa verið það sem bjargaði lífi hans. 

Green­peace hef­ur beðist af­sök­un­ar á at­vik­inu, sem fór að þeirra sögn ekki samkvæmt plani.

Tveir slösuðust við athæfið

Tveir áhorfendur slösuðust þegar fallhlífarstökkvarinn lenti í miðri áhorfendastúkunni. Hann hafði reynt að nauðlenda en það gekk ekki betur en svo að hann flæktist í vír­um á vell­in­um, sem sett­ir voru upp fyrir sjón­varps­upp­töku, sem varð til þess að hann féll til jarðar í áhorfendastúkunni eins og fyrr segir.

Báðir hinna slösuðu voru fluttir til aðhlynningar á sjúkrahúsi eftir atvikið en hafa nú verið útskrifaðir, að sögn Svens Müllers, talsmanns lögreglunnar í München.

Greenpeace-aðgerðasinnanum, sem er 38 ára gamall íbúi Pforzheim-borgar í sambandslandinu Baden-Württemberg í Þýskalandi, varð ekki meint af lendingunni en var þó handtekinn í áhorfendastúkunni eftir atvikið.

Manninum hefur verið sleppt úr varðhaldi en hann á yfir höfði sér ákærur fyrir brot á flugumferðarlögum, fyrir að stofna flugumferð í hættu, fyrir að valda alvarlegum líkamsmeiðingum og fyrir að fara inn á fótboltavöllinn í leyfisleysi, samkvæmt upplýsingum Müllers.

mbl.is