Slasaði áhorfendur með glórulausu athæfi

Skömmu áður en leikur Þýskalands og Frakklands var flautaður í …
Skömmu áður en leikur Þýskalands og Frakklands var flautaður í gang í gær, flaug aðgerðasinni inn á völlinn og slasaði viðstadda. mbl.is

Lögregluyfirvöld í München í Þýskalandi hafa til rannsóknar athæfi sem átti sér stað á leik Þýskalands og Frakklands á EM í knattspyrnu í gær, þegar aðgerðasinni á vegum Greenpeace-samtakanna sveif inn á völlinn í fallhlíf. Maðurinn lenti í áhorfendastúku vallarins og slasaði tvo, sem þurftu á sjúkrahús.

Athæfið, sem vakið hefur töluverða reiði, átti sér stað skömmu áður en flautað var til leiks í gær. Greenpeace hefur gefið það út að atvikið hafi ekki tekist sem skyldi og lögreglan í Þýskalandi hefur sagt atvikið hafa verið „óábyrgt“.

Aðgerðasinninn sveif í gulri fallhlíf sem á stóð „Spörkum olíunni“ og reyndi þannig að hvetja til grænna orkuskipta. Hann flæktist svo í vírum á vellinum, sem settir voru upp til sjónvarpsupptöku, og þannig féll hann til jarðar í áhorfendastúkunni eins og fyrr segir.

Greenpeace hefur beðist afsökunar á atvikinu og segir aðgerðasinnann hafa átt að láta latexbolta með áletrun falla inn á völlinn áður en hann svifi burt. Augljóslega fór ekki sem skyldi.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert