Gróf aðför að tilverurétti fólks

Mótmælandi með mynd sem sýnir Viktor Orban, forsætisráðherra Ungverjalands halda …
Mótmælandi með mynd sem sýnir Viktor Orban, forsætisráðherra Ungverjalands halda á regnbogalituðum trefli. AFP

Nýleg lagasetning í Ungverjalandi er gróf aðför að tilverurétti fólks í landinu, segir í tilkynningu frá stjórn Samtakanna '78.

Lög sem banna miðlun efnis í skólum sem talin eru stuðla að samkynhneigð og kynjaskiptingu voru samþykkt á þingi í Ungverjalandi á þriðjudag. Lagasetningin hefur hlotið mikla gagnrýni frá stjórnarandstöðunni þar í landi sem og mannréttindasamtökum á borð við Amnesty International. Þetta kemur fram í frétt Reuters.

Stjórn Samtakanna '78 hefur lýst yfir djúpstæðum áhyggjum af þróun mála í Ungverjalandi og segir nýsamþykkt lögin grófa aðför að tilverurétti hinsegin fólks í landinu. Að mati samtakanna banna nýju lögin í reynd sýnileika og réttindabaráttu hinsegin fólks.

Við hvetjum íslensk stjórnvöld til þess að fordæma þessa skaðlegu lagasetningu opinberlega á alþjóðavettvangi og standa þannig vörð um mannréttindi og frelsi fólks til þess að vera það sjálft,“ segir stjórn Samtakanna '78.

mbl.is

Bloggað um fréttina