Maðurinn sem átti að stöðva Nóbelsnefndina

Anders Magnus í ræðupúlti Hvíta hússins í Washington í blaðamannasalnum …
Anders Magnus í ræðupúlti Hvíta hússins í Washington í blaðamannasalnum þar sem hann hefur setið margan fundinn síðan 2017, þegar hann tók við starfi fréttaritara NRK í Bandaríkjunum. Hann er nú á heimleið, 69 ára gamall, eftir að hafa flutt Norðmönnum fréttir frá 76 löndum frá 1978 til dagsins í dag. Ljósmynd NRK notuð með góðfúslegu leyfi. Ljósmynd/NRK

Anders Magnus, hinn litríki fréttaritari norska ríkisútvarpsins NRK, er á heimleið, að þessu sinni frá Washington. Magnus er fyrir margt löngu orðinn stofustáss og heimilisvinur norskrar þjóðar, sem fylgst hefur með honum á skjánum greina frá gangi mála í blóðugri borgarastyrjöld í Síerra Leóne, segja af skelfingu lostnum íbúum og löskuðu kjarnorkuveri í Fukushima og öskureiðum mótmælendum í Minneapolis í kjölfar vígs George Floyds svo eitthvað sé nefnt.

Er þar aðeins dropi á ferð í hafsjó ferils sem hófst fyrir 43 árum, en síðan hefur Magnus flutt löndum sínum í Noregi fréttir frá alls 76 löndum í öllum álfum heimsins, að frátöldu Suðurskautslandinu.

Magnus starfaði meðal annars sem fréttaritari ríkisútvarpsins norska í Afríku árin 1998 til 2002, Asíu 2010 til 2014 og Bandaríkjunum frá 2017 til dagsins í dag. „Ég ætla að vinna í eitt ár eftir að ég kem aftur til Noregs, verð í einhverjum sérverkefnum þar til ég fer á eftirlaun á næsta ári,“ segir Magnus í stuttu samtali við Morgunblaðið frá Washington, en hann verður sjötugur árið 2022. „Ég hætti nú samt ekkert alveg þá, ég verð eitthvað hjá Miðstöð rannsóknarblaðamennsku í Bergen [Senter for Undersøkende Journalistikk, SUJO], bæði sem leiðbeinandi og í einhverjum verkefnum,“ bætir hann við, enda alkunna að innvígðir hætta ekki svo glatt í blaðamennsku.

Japanskir hermenn leita í rústum bæjarins Yamada í Norður-Japan eftir …
Japanskir hermenn leita í rústum bæjarins Yamada í Norður-Japan eftir jarðskjálfta og flóðbylgju í mars 2011 sem kostaði 20.000 manns lífið. Ljósmynd/Anders Magnus

Í tilefni heimflutnings á norska grund sendi Magnus frá sér fróðlega samantekt um minnisverð augnablik á ferli sínum síðustu áratugi undir yfirskriftinni „Heimurinn er minn vinnustaður“ og er hér stiklað á stóru.

„Ert þú ekkert smeykur?“

Sautján ára gamall sat Magnus við hlið vörubifreiðarstjóra á M1-brautinni á norðurleið frá London. Hann var puttaferðalangur og auk þess í fyrsta sinn einn á ferðalagi utan Norðurlandanna. Ökumaðurinn strompreykti sígarettur sem hann rúllaði sér sjálfur og þeir Norðmaðurinn ungi ræddu um daginn og veginn.

Magnus spurði hikandi hvort ferðafélaginn óttaðist aldrei að taka upp bláókunnuga puttaferðalanga sem hann vissi engin deili á. Var hann ekkert hræddur við að lenda í bíræfnu ráni? „Þá dreg ég bara upp þessa hérna,“ svaraði ökumaðurinn grafalvarlegur með stingandi augnaráði og sýndi unglingnum vígalega silfurgljáandi Colt-skammbyssu. Svo stökk andlit hans sundur í innilegum hlátri, hann lagði vopnið frá sér og spurði til baka: „En ert þú ekkert smeykur um á hverjum þú lendir á vegum úti?“

Sú spurning hefur vafalaust oft leitað aftur á Magnus á ferli hans sem fréttaritari um gervalla heimsbyggðina. Ekki síst fyrstu ár Afríkutímabilsins þar sem algengasta fréttaefnið snerist um valdarán og styrjaldir. „Ég hef sloppið lifandi frá eþíópískri stórskotaliðsárás í Eritreu og skothríð liðsmanna Mugabes í Simbabve. En aldrei varð taugatitringurinn meiri í umfjöllun um Afríkustríðin, en þegar hópur herbarna umkringdi mig og tvo samstarfsmenn á víglínunni utan við Freetown, höfuðborg Síerra Leóne, og kváðust ætla að drepa okkur,“ skrifar Magnus í samantekt sinni.

Magnus ræðir við venesúelska stjórnarandstöðuleiðtogann Juan Guaidó í janúar 2019, …
Magnus ræðir við venesúelska stjórnarandstöðuleiðtogann Juan Guaidó í janúar 2019, sem þá hafði lýst sig forseta landsins til bráðabirgða á meðan íbúar Venesúela og alþjóðasamfélagið þrýstu á Nicolás Maduro forseta að efna til löglegra forsetakosninga. Ljósmynd/Lars Os

Þessir berfættu litlu stríðsmenn, viti sínu fjær af kókaínneyslu, beindu öflugum AK-47-hríðskotarifflum sínum að hópnum frá NRK og þóttist Magnus þess viss á þeirri stundu, að hann lifði sín síðustu augnablik. „En, eins og þið vitið núna, lifðum við allir þrír. Þökk sé ísköldum óttanum, löngum samningaviðræðum og þykkum seðlabúntum. Ég var með peninga í öllum vösum og í skónum líka – einmitt til að nota við svona aðstæður. Viku seinna skutu þeir og drápu ljósmyndara frá Associated Press sem var með okkur í þessari ferð.“ Þá var Magnus mættur á vígvelli annars stríðs, annars staðar í Afríku, til að segja Norðurlandabúum frá.

Átti að telja Nóbelsnefndinni hughvarf

Stóri draumurinn var þó alltaf Kína, það þótti Magnus forvitnilegt ríki og þangað kom hann fyrst árið 1977, árið eftir andlát Maó formanns, enda var það fyrsta sem hann heyrði, þegar hann gekk út af járnbrautarstöðinni í Peking, ómur lagsins Austrið er rautt, óopinbers þjóðsöngs Kína á árum menningarbyltingarinnar, sem hljómaði frá klukkuturnum brautarstöðvarinnar.

Nýtekinn við starfi fréttaritara í Asíu árið 2010 með Forboðnu …
Nýtekinn við starfi fréttaritara í Asíu árið 2010 með Forboðnu borgina í Peking í baksýn, höll keisaranna af Ming- og Qing-ættunum. Kínverjar lögðu ofurkapp á að hindra að lýðræðissinninn Liu Xiaobo, sem þá sat í fangelsi í Kína, fengi friðarverðlaun Nóbels og var Magnus ætlað að tala um fyrir norsku Nóbelsnefndinni. Ljósmynd/Anders Magnus

Löngu síðar, árið 2010, var Magnus staddur í Kína á ný, þá sem nýsleginn Asíufréttaritari NRK. Þegar ráðamenn alþýðulýðveldisins áttuðu sig á að þar færi Norðmaður í hlutverki fréttaritara, drógu þeir samstundis þá ályktun, að hann hlyti að ráða lögum og lofum í heimalandi sínu. Og akkúrat árið 2010 skipti það Kínverska kommúnistaflokkinn höfuðmáli að hafa aðgang að áhrifamanni í Noregi.

Norska Nóbelsverðlaunanefndin hafði þá nýverið tilkynnt þá ákvörðun sína, að veita kínverska rithöfundinum og lýðræðissinnanum Liu Xiaobo friðarverðlaun Nóbels, nokkuð sem að mati kínverskra ráðamanna mátti alls ekki gerast.

„Fu Ying var aðstoðarutanríkisráðherra Kína 2010. Hún bauð mér á dýrasta veitingahúsið í Peking til að biðja mig að hindra að Nóbelsverðlaunanefndin veitti lýðræðissinnanum Liu Xiaobo friðarverðlaunin,“ skrifar Magnus. Aðstoðarutanríkisráðherrann hafi ekki lagt minnsta trúnað á að fréttaritarinn gæti ekki talið nefndinni hughvarf. Því næst hafi Fu Ying farið með Magnus í lystigarð nokkurn þar sem lífverðir fylgdu þeim hvert fótmál.

„Árin fjögur hér í Bandaríkjunum hafa einkennst af rjúkandi heitum …
„Árin fjögur hér í Bandaríkjunum hafa einkennst af rjúkandi heitum fréttum, en ég fékk nú að sjá dálítið af náttúrunni samt sem áður.“ Magnus með eiginkonu sinni, Guri Elvebakk lækni, sem hafði miklar áhyggjur af honum heima í Peking þegar hann þurfti að heimsækja Fukushima í Japan þar sem kjarnorkuver var stórlaskað eftir hamfarir. Ljósmynd/Lars Os


Tjáði ráðherra Norðmanninum þar, að fengi baráttumaður fyrir lýðræði, sem sæti í fangelsi, friðarverðlaun Nóbels liti það verulega illa út fyrir Kína og Noreg. „En Liu Xiaobo fékk verðlaunin og í kjölfarið mátti ekki bara Noregur sæta reiði stórveldisins – það mátti ég líka. Vefsíða NRK var bönnuð í Kína og næstu fjögur árin tók enginn opinber embættismaður símann þegar ég hringdi,“ rifjar fréttaritarinn upp.

Sú afneitun hafi þó aðeins verið dropi í hafið. Segir Magnus kínverska leyniþjónustumenn hafa elt hann og eiginkonu hans á röndum og farið með leynd inn á heimili þeirra, stjórnarandstæðingar sem veittu honum viðtöl hafi sætt ofsóknum og handtökum og yfirvöld hlerað síma hans og netumferð.

Vorum í niflheimi

Engan skyldi því undra að fréttaritaranum hafi verið stórlega létt að komast um stundarsakir úr mengun í tvennum skilningi í kínversku höfuðborginni þegar hann var sendur til japönsku borgarinnar Fukushima í mars 2011 þar sem allt var í hers höndum í kjölfar jarðskjálfta og flóðbylgju 11. mars sem kostaði 20.000 mannslíf auk þess sem stórlaskað kjarnorkuver ógnaði þar öllu nánasta umhverfi.

Aung San Suu Kyi, leiðtogi Lýðræðisfylkingarinnar í Búrma, eða Mjanmar, …
Aung San Suu Kyi, leiðtogi Lýðræðisfylkingarinnar í Búrma, eða Mjanmar, var, eins og Liu Xiaobo, í fangelsi þegar hún hlaut friðarverðlaun Nóbels á sínum tíma. Stofufangelsi. Í nóvember 2010 losnaði hún úr því en yfirvöld bönnuðu erlendu fjölmiðlafólki að ræða við hana. Magnus villti á sér heimildir, sagðist reka ferðaskrifstofu og fékk að hitta baráttukonuna, fyrstur erlendra fjölmiðlamanna. Ljósmynd/NRK

„Ég hef séð miklar náttúruhamfarir á mínum starfsferli, en ekkert sem jafnaðist á við þetta. Flóðbylgjan hafði bókstaflega mulið strandbæina niður og stór svæði inn til landsins voru óíbúðarhæf vegna geislavirkni. Við vorum í niflheimi, þetta var eins og kjarnorkustyrjöld, með háskalegan, en ósýnilegan, óvin allt um kring,“ skrifar Magnus. Meðan á öllu þessu stóð hafi læknismenntuð eiginkona hans, Guri Elvebakk, setið í öngum sínum heima í Peking yfir að Magnus og samstarfsfólk hans hættu sér of nálægt kjarnorkuverinu skaddaða.

Þegar Magnus stóð að lokum frammi fyrir því vali að sækja um stöðu fréttaritara NRK í Washington ræddu þau hjónin málið og veltu upp möguleikum. Lítið hafði verið um lognmollu á Asíuárunum 2010 til 2014 og enn minna á Afríkutímabilinu. Yrðu Bandaríkin næsti vettvangur yrði rólgheitablærinn töluvert meiri.

Jens Stoltenberg, framkvæmdastjóri Atlantshafsbandalagsins, NATO, í heimsókn hjá Donald Trump …
Jens Stoltenberg, framkvæmdastjóri Atlantshafsbandalagsins, NATO, í heimsókn hjá Donald Trump á skrifstofu hans. „Ég fékk að smella af mynd, sem varð dálítið hreyfð, áður en okkur fjölmiðlafólkinu var hent út.“ Ljósmynd/Anders Magnus

„En svo sigraði Trump í kosningunum! Aldrei nokkurn tímann á mínum 40 árum í fréttamennsku hef ég unnið eins sleitulaust og það tímabil sem þá tók við. Trump bjó til fréttir nánast daglega með ummælum sínum á Twitter. Ráðherrar komu og fóru í endalausri bunu, Mueller-rannsóknin, tvenn réttarhöld, þingkosningar og síðast en ekki síst forsetakosningarnar og árásin á þinghúsið,“ skrifar Magnus.

Venjulegt fólk skilið mest eftir

Enginn hörgull hafi verið á fréttaefni með Donald Trump í Hvíta húsinu, en eins hafi aðrir og stórir atburðir komið eins og þrumur úr heiðskíru lofti og nefnir Magnus þar sérstaklega Floyd-málið og mótmælaölduna í kjölfarið og faraldurinn sem lagðist þungt á alla heimsbyggðina og liggur sums staðar enn.

Við þinghúsið í Washington fimm mánuðum eftir árás stuðningsmanna Donalds …
Við þinghúsið í Washington fimm mánuðum eftir árás stuðningsmanna Donalds Trumps í ársbyrjun. „Allar víggirðingarnar og hermennirnir á bak og burt.“ Magnus er á leið heim til Noregs og fer á eftirlaun á næsta ári. Það þýðir ekki að hann ætli að hætti að vinna sagði hann Morgunblaðinu af framtíðaráætlunum sínum. Ljósmynd/Snorre Wik

Magnus kveður venjulegt fólk skilja mest eftir sig þegar kemur að viðmælendum, ekki síst fólk sem orðið hafi fyrir áföllum og líf þess breyst í einu vetfangi fyrir atbeina styrjalda, sjúkdóma eða náttúruhamfara. Hafi hann þó átt orðastað við margt heimsþekkt fólk og nefnir þar Nelson Mandela, forseta Suður-Afríku, Desmond Tutu biskup, Palestínuleiðtogann Yasser Arafat, Yitzhak Rabin, forsætisráðherra Ísraels, Aung San Suu Kyi, leiðtoga búrmísku Lýðræðisfylkingarinnar, Dalai Lama, andlegan leiðtoga Tíbeta, og Bandaríkjaforsetana Jimmy Carter og Bill Clinton, þó báða eftir að þeir létu af embætti.

„Þegar ég hóf störf hjá NRK árið 1978 notuðum við gömlu góðu filmuvélarnar og vorum með margar rúllur af filmu sem svo voru færðar yfir á útsendingarform. Núna getur maður gert það sama með símanum sínum,“ rifjar Magnus upp af tækniframförum síðustu fjögurra áratuga. Beinar útsendingar hafi enn fremur boðið upp á áskoranir og það þótt komið hafi verið fram á árið 2002.

Þegar eldfjallið Nyiragongo í Kongó gaus það ár kostaði það hvítuna úr augunum að senda fimm mínútna frásögn í beinni sjónvarpsútsendingu til Noregs. Tæknimálunum hafi verið bjargað með því að kaupa þjónustu af fyrirtæki sem flutti risastóran gervihnattasendi á staðinn og mínúturnar fimm hafi kostað norska ríkisútvarpið skildinginn. Nú, 20 árum síðar, megi koma slíkri útsendingu í kring með snjallsíma eða örsmárri myndavél og sendi.

Milli steins og sleggju

Lýkur Magnus yfirliti sínu um áratuga starfsferil í fremstu víglínu með því að heimurinn hafi tekið stórstígum breytingum síðan á níunda áratugnum, fjöldi ríkja í Rómönsku-Ameríku, Asíu og Afríku þróast frá einræðis- eða annars konar gerræðislegum stjórnarháttum í lýðræðisátt. Nýjar ógnir steðji þó engu að síður að með falsfréttaflutningi sem byrlega blási fyrir með þeirri ofgnótt upplýsinga sem rafræn tilvera nútímans bjóði upp á og séu Bandaríkin, Rússland og Kína þar áberandi dæmi.

Enginn hörgull er á frumlegum örnefnum vestanhafs. Norskir fréttaáhorfendur heima …
Enginn hörgull er á frumlegum örnefnum vestanhafs. Norskir fréttaáhorfendur heima í stofu ávarpaðir frá bænum Intercourse í Pennsylvania. Ljósmynd/Ina Garvik

„Ég verð að játa að ég er áhyggjufullur nú þegar ég lýk mínu síðasta tímabili sem fréttaritari. Nái einveldisöflin undirtökunum í Bandaríkjunum líka óttast ég að evrópsk lýðræðisríki, þar á meðal litli Noregur, verði milli steins og sleggju með stórveldin á báða bóga.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Kauptu vikupassa

Lestu meira með vikupassa!

Fáðu þér vikupassa fyrir 1.990 kr. og þú færð aðgang að öllu efni úr blaði dagsins í dag og næstu 6 daga.

Kaupa vikupassa

Aðrar áskriftarleiðir »