Viðurkennir erfiðleika vegna matvælaskorts

Kim Jong-un síðastliðinn þriðjudag.
Kim Jong-un síðastliðinn þriðjudag. AFP

Kim Jong-un, leiðtogi Norður-Kóreu, hefur viðurkennt að erfið staða sé uppi í landinu vegna matvælaskorts. Frá þessu greindi hann í samtali við ríkisfjölmiðilinn KCNA.

Ástandið hefur vakið ótta um að mikil hungursneyð sem varð þar á tíunda áratugnum þegar hundruð þúsunda létust muni endurtaka sig. 

Norður-Kórea, sem hefur verið beitt ýmiss konar viðskiptaþvingunum vegna kjarnorkuvopna og langdrægra eldflauga, hefur lengi átt í vandræðum með að útvega almenningi matvæli.

AFP

Á síðasta ári setti kórónuveirufaraldurinn, ásamt stormum og flóðum, enn meira strik í reikninginn varðandi efnahag landsins.

Á fundi sem var haldinn á vegum Verkamannaflokksins í Norður-Kóreu sagði Kim að efnahagurinn hefði braggast á þessu ári og iðnframleiðsla aukist um 25% á milli ára.

Aftur á móti hefðu önnur vandamál komið upp.

„Staðan er að verða alvarleg varðandi mat fyrir almenning vegna þess að hrísgrjónaframleiðslan stóðst ekki áætlanir vegna eyðileggingar af völdum fellibylja á síðasta ári,“ sagði Kim.

Einnig var rætt um áhrif kórónuveirunnar á efnahaginn á fundinum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert