Biðja fórnarlömb nauðgana afsökunar

Samkvæmt opinberum gögnum voru 1.439 manns dæmdir fyrir nauðgun í …
Samkvæmt opinberum gögnum voru 1.439 manns dæmdir fyrir nauðgun í Bretlandi árið 2020 og hafa aldrei verið færri. AFP

Breska ríkisstjórnin hefur beðið fórnarlömb nauðgana afsökunar og viðurkennt brotalamir í réttarkerfinu sem bráðnauðsynlegt er að laga. 

„Það fyrsta sem ég verð að segja er að ég biðst afsökunar,“ sagði Robert Buckland dómsmálaráðherra þegar skýrsla um málsmeðferð nauðgunarmála í Bretlandi var kynnt í dag. „Þetta er ekki nógu gott. Við verðum að gera mun betur,“ sagði Buckland jafnframt. 

Í skýrslunni, sem var dágóðan tíma í vinnslu, er kallað eftir því að ákæruvaldið færi áhersluna yfir á geranda frekar en þolanda. 

Samkvæmt opinberum gögnum voru 1.439 manns dæmdir fyrir nauðgun árið 2020 og hafa aldrei verið færri frá því mælingar hófust. Árið þar á undan féllu 1.925 dómar í nauðgunarmálum þrátt fyrir að tilkynningar um nauðganir til lögreglu hafi nánast tvöfaldast frá árunum 2015-2016 þegar 4.643 ákærur voru gefnar út. 

Aðeins 1,6 prósent mála enda með ákæru

Á sama tímabili hefur ákærum sem enda með sakfellingu fækkað úr 13 prósentum í aðeins þrjú prósent. Fórnarlömb nauðgana eða tilrauna til nauðgana í Bretlandi eru árlega um 128 þúsund en aðeins 1,6 prósent tilkynntra mála enda með ákæru, samkvæmt opinberum tölum.

Buckland, ásamt Priti Patel innanríkisráðherra og Michael Ellis ríkissaksóknara, segist skammast sín fyrir þá stöðu sem upp er komin og hann iðrist mjög. „Við höfum brugðist fórnarlömbum nauðgana.“

Buckland segir stöðuna meðal annars mega rekja til niðurskurðar í fjárframlögum og heitir því að fjármagni verði veitt í kerfið svo málum verði framfylgt.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert