Eitt versta umhverfisslys sögunnar á Srí Lanka

Skipið MV X-Press Pearl brann í tvær vikur áður en …
Skipið MV X-Press Pearl brann í tvær vikur áður en tókst að slökkva eldana. AFP

Umhverfisverndarsinnar hafa nú lýst því yfir að eldsvoðinn í flutningaskipinu MV X-Press Pearl úti fyrir ströndum Srí Lanka fyrir tæpum mánuði sé eitt versta sjávarlífsumhverfisslys í sögu landsins.

Skipið brann í tvær vikur áður en loks tókst að slökkva eldinn en nú standa yfir aðgerðir sem miða að því að draga úr menguninni sem varð vegna atviksins. Um borð í skipinu voru 1.486 gámar, 25 tonn af saltpéturssýru og um 325 tonn af eldsneyti.

Hræjum sjávardýra skolar nú upp á strendur Srí Lanka en vísindamenn hafa tekið eftir að minnsta kosti tífaldri fjölguð dauðsfalla meðal skjaldbaka á eynni frá síðasta ári. Segja þeir skýr tengsl milli dauðsfallanna og mengunarinnar.

Verið er að hreinsa strendur Srí Lanka en ríflega þúsund …
Verið er að hreinsa strendur Srí Lanka en ríflega þúsund tonn af plastbitum og rusli fóru í sjóinn með skipinu. AFP

Auk hættulegra efna voru ríflega þúsund tonn af plastbrotum og öðru rusli um borð í skipinu sem nú er verið að hreinsa upp af nærliggjandi ströndum en nú þegar hafa 45 gámar verið fylltir. Yfirvöld á Srí Lanka leita nú réttar síns en þau ætla að fara fram á bætur sem nema tæplega fimm milljörðum íslenskra króna.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert