Kínversk vegferð í Noregi

Milljónasta rafbílnum af færiböndum BYD fagnað með sérstakri kveðju til …
Milljónasta rafbílnum af færiböndum BYD fagnað með sérstakri kveðju til norskra rafbílakaupenda sem næst ekki inn á myndina, en á veggnum vinstra megin stendur „Hallo Norge“. BYD er einn nokkurra kínverskra rafbílaframleiðenda sem ætla sér hluta af kökunni í Noregi. Ljósmynd/BYD

Tesla, Audi e-tron og Opel Ampera-e eru meðal þeirra rafdrifnu fáka sem Norðmenn þekkja orðið vel til. Hætt er við að færri kannist þó við merkin BYD, NIO, Honggi, Xpeng, Seres og Dongfeng. Á því gæti þó orðið breyting næstu misseri.

Þarna eru á ferð rammkínverskir rafmagnsbílar, það er að segja ekki hönnun annarra ríkja framleidd í Kína, og ætla aðstandendur þeirra sér sneið af þeirri köku sem þýskir, amerískir, franskir, japanskir og kóreskir framleiðendur hafa mikið til einir kjamsað á í Noregi fram til þessa.

„Já, þetta er alveg rétt. Þeir [kínversku framleiðendurnir] leggja á ráðin um að taka sinn skerf af rafbílamarkaðnum,“ segir Christina Bu, framkvæmdastjóri félags norskra rafbílaeigenda, eða Elbilforeningen, í samtali við norska ríkisútvarpið NRK. „Þeir hafa átt erfitt uppdráttar á almenna bílamarkaðnum í Evrópu, en binda nú vonir við rafbíla og hafa alla burði til þess,“ segir hún.

Mikil spenna fyrir Noregsmarkaði

Hundrað rafbílar frá BYD eru þegar á leið til Noregs og væntanlegir á norska vegi þegar í sumar, sem reyndar er alls ekki frumraun BYD á norska markaðnum þar sem rafmagnsstrætisvagnar fyrirtækisins voru fyrst teknir í notkun í Noregi árið 2018 og eru nú þegar hátt í hundrað þeirra í notkun í Ósló og Bærum auk vagna frá hollenska framleiðandanum VDL.

Þá eru einkabílar frá Seres væntanlegir um áramótin, NIO og Honggi í haust, Xpeng er þegar í sölu í Noregi og reiknað með Dongfeng fyrri hluta næsta árs.

Li Yunfei, vörumerkjastjóri BYD, sem stendur fyrir Build Your Dreams, segir fyrirtækið mjög spennt fyrir Noregsmarkaði. „Allir líta á Noreg sem þróaðasta rafbílamarkað heims,“ segir vörumerkjastjórinn við NRK, „þar er ekki bara einn af mörgum mörkuðum, heldur sá sem lengst er kominn og í hve örustum vexti. Þess vegna veðjar BYD á Noreg.“

Tang-rafmagnsjepplingurinn frá BYD tekur sjö manns í sæti og er …
Tang-rafmagnsjepplingurinn frá BYD tekur sjö manns í sæti og er meðal þeirra bíla frá kínverska framleiðandanum sem sjást munu á norskum vegum í sumar, en fyrstu 100 bílarnir eru á leiðinni til landsins. Ljósmynd/BYD

Bu hjá Elbilforeningin kveður Noreg vissan prófstein kínverskra rafbílaframleiðenda, Kínverjar hafi á tilfinningunni, að takist þeim að koma ár sinni fyrir borð í Noregi sé á vísan að róa með alla Evrópu. Ekki ætti að skorta framboðið, þar sem Kínverjar settu sér það markmið í fyrra, að árið 2030 verði rafbílar 40 prósent af framleiðslu þarlendra bifreiðaframleiðenda, nokkuð sem MIT-tækniháskólinn í Bandaríkjunum hefur gefið út að muni lækka verð rafbíla og rafhlaða í þá um gervalla heimsbyggðina.

BYD reyndari en VW

NIO, sem er bara sjö ára gamalt fyrirtæki, hefur þegar tryggt sér skrifstofuhúsnæði við sjálfa Karls Jóhannsgötu í miðborg Óslóar. Þar hyggst fyrirtækið opna dyr í haust og hefur þegar á prjónunum áætlanir um að bjóða upp á rafhlöðuskipti í bifreiðum sínum á aðeins nokkrum mínútum auk þess að byggja upp net hleðslustöðva í Noregi. „Fyrirtækið stendur framarlega á tæknisviðinu og hyggur að innviðum, eins og Tesla hefur gert með eigin hleðslustöðvar,“ segir Bu.

Espen Kristoffersen, viðskiptastjóri RSA í Drammen, sem flytur rafbíla BYD inn til Noregs, segir fyrirtækið vel í stakk búið til að styðja við fyrstu eigendur BYD-bíla í Noregi. RSA er þegar með umboð fyrir Suzuki, Isuzu og kínverska rafbílaframleiðandann Maxus, sem er í eigu sama fyrirtækis og framleiðir MG-rafbílana í Kína. „BYD hefur framleitt milljón rafmagnsbíla og við erum til þjónustu reiðubúin,“ segir Kristoffersen við NRK og bendir í lokin á að BYD hafi meiri reynslu af rafmagnsbílum sem framleiðandi, en til dæmis Volkswagen.

NRK

Fædrelandsvennen

MIT Energy Initiative

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert