Konum á barneignaaldri skuli forðað frá drykkju

Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin.
Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin. AFP

Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin hefur sætt gagnrýni undanfarna viku fyrir drög að skýrslu um áhrif áfengisneyslu á heilbrigði. Í einum hluta skýrslunnar virðist stofnunin gefa í skyn mikilvægi þess að konur á barneignaaldri drekki sem minnst og helst ekkert.

Í kafla skýrslunnar sem snýr að forvarnastarfi segir í innganginum: „Það er mikilvægt að yfirvöld og almenningur þekki þær áhættur og skaðvænleika sem fylgja áfengisneyslu. Því skal gæta þess að reyna eftir fremstu getu að forða ungmennum frá því að byrja að drekka en einnig ráða óléttum konur og konum á barneignaaldri frá drykkju[...].“

Segir hlutverk kvenna smættað

Forstjóri Bresku þungunarráðgjafarþjónstunnar (BPAS), Clair Murphy, segir þessi orð endurspegla furðulegt viðhorf til kvenna og fóstra. „Með því að líta á konur á barneignaaldri, sem eru um 40 ár af æviskeiði kvenna, sem ekkert nema ílát fyrir fóstur smættar Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin þær niður svo ekkert situr eftir nema æxlunarhlutverkið,“ er haft eftir Murphy í The Independent.

Clair þótti tónn skýrslunnar einnig furðulegur. Þar þótti henni ýjað að því að vernda þyrfti fóstur fyrir konum og drykkju þeirra, jafnvel fóstur sem eru ekki enn þá til. Þetta sé þekkt bragð sem sé notað um víða veröld til að stöðva og jafnvel glæpavæða ákvarðanir þungaðra kvenna.

Synd að þessi hluti skýrslunnar fái mesta athygli

Dr. Sadie Boniface, yfirmaður rannsókna á sviði áfengisneyslu hjá King‘s College í London, segir það synd að þessi hluti skýrslunnar fái mesta athygli og bendir á að þetta séu einungis fyrstu drög og umrædd setning sé ekki hluti af neinum tilteknum aðgerðum. Þar væri einungis um almenna markmiðasetningu að ræða.

„Þær aðgerðir sem Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin hefur mælt með eru til þess fallnar að sporna við fósturskemmdum vegna áfengisneyslu í hverri mynd sem þær kunna að birtast. Það er engin áætlun í skýrslunni sem miðar að því að sporna við áfengisneyslu kvenna á barneignaaldri.

Auðvitað eiga konur á meðgöngu eða þær sem eru að reyna að eignast barn að forðast áfengi algjörlega. Stofnunin hefur um langt skeið talað fyrir lausnum byggðum á staðreyndum til að takmarka skaðlega áfengisneyslu,“ hefur vefurinn Science Media Center eftir dr. Boniface.

mbl.is