Loks laus úr hlekkjum hvors annars

Úkraínska parið lét losa sig úr hlekkjum hvort annars eftir …
Úkraínska parið lét losa sig úr hlekkjum hvort annars eftir að hafa verið föst saman í 123 daga. Skjáskot/The Guardian

Það tók úkraínska parið Alexandr Kudlay og Viktoriu Pustovitova 123 daga af því að vera hlekkjuð saman með handjárnum til að þau áttuðu sig á því að þau ættu ekki samleið.

Ýmislegt hafði gengið á í sambandi parsins sem tók á það ráð að hlekkja sig saman með handjárnum á valentínusardag til að koma í veg fyrir að þau hættu saman eina ferðina enn. Þetta kemur fram í frétt Guardian.

Parið, sem sýndi frá tilraun sinni á samfélagsmiðlum, gerði bókstaflega allt í sameiningu. Allt frá því að versla inn yfir í það að fara í sturtu og nota klósett.

Viktoria, sem var ekki hrifin af hugmyndinni í fyrstu, felldi tár þegar hún ræddi sambandsslitin við blaðamann Reuters.

„Ég held að þetta hafi verið ágætis lexía fyrir okkur og ég vona að ekkert annað par hafi þetta eftir okkur,“ segir hún í viðtali í Kænugarði.

Segist ekki hafa fengið næga athygli

Viktoria segist hafa saknað þess mest að geta gert ákveðna hluti í einrúmi en þó hafi henni fundist kærastinn ekki veita henni nógu mikla athygli á meðan þau voru hlekkjuð saman.

„Alexandr sýndi mér enga athygli því við vorum alltaf saman. Hann sagði mér aldrei að hann saknaði mín þótt það væri eitthvað sem ég vildi heyra,“ segir Viktoria.

Alexandr segist ekki sjá eftir því að hafa reynt þessa leið til að bjarga sambandinu. Það að vera hlekkjuð saman hafi hjálpað parinu að átta sig á því að þau ættu ekki samleið.

„Við erum ekki á sömu bylgjulengd, við erum of ólík,“ segir Alexandr.

Úkraínsk fréttastofa festi það á filmu þegar parið lét losa sig úr hlekkjum hvors annars. Fulltrúi metabókarinnar í Úkraínu var einnig á staðnum og staðfesti hann að ekkert par hefði náð að afreka neitt af þessu tagi áður.

Parið hyggst selja handjárnin á uppboði og gefa peninginn sem þau fá fyrir þau til góðgerðarmála.

mbl.is