Ofurhugi lést við atlögu að heimsmeti

Alex Harvill lætur eftir sig konu og tvö börn.
Alex Harvill lætur eftir sig konu og tvö börn. Ljósmynd/facebook

Tuttugu og átta ára gamall bandarískur ofurhugi, Alex Harvill, lést í gær er hann gerði tilraun til að setja nýtt met í mótorhjólastökki.

BBC greinir frá.

Slysið varð í Washingtonríki og að sögn yfirvalda lést Harvill á æfingu fyrir tilraunina snemma í gærmorgun. Hann ætlaði sér að reyna við 107 metra stökk fyrir framan áhorfendur á Moses Lake Airshow-mótinu. 

Á myndskeiði af atvikinu sést mótorhjól Harvills lenda frá áætluðum lendingarstað, svo að stökkið var ekki nægilega langt, í moldarhaug. 

Fram kom í fétt staðarblaðsins Columbia Basin Herald að Harvill hefði flogið yfir stýri hjólsins og hjálmur hans skotist af við lendingu. 

Skipuleggjendur mótsins höfðu upphaflega gefið út yfirlýsingu um að Harvill hefði verið fluttur slasaður á sjúkrahús en talsmaður lögreglu staðfesti síðar andlát hans.

Harvill lætur eftir sig eiginkonu og tvö börn, þar af eitt nýfætt. 

Harvill starfaði sem atvinnumótorkrossíþróttamaður og átti sömuleiðis tvö met í mótorhjólastökki.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert