Þurrkar í Kaliforníu leystu rúmlega 50 ára ráðgátu

Vatnsmagn í vötnum Kaliforníu er í sögulegu lágmarki.
Vatnsmagn í vötnum Kaliforníu er í sögulegu lágmarki. AFP

Miklir þurrkar í Kaliforníu-ríki gætu hafa leyst áratugagamla ráðgátu um flugvél sem hvarf á nýársdag 1965. 

Stöðuvötn víðs vegar um ríkið hafa þornað upp í þurrkunum. Þegar Seafloor Systems, fyrirtæki sem sérhæfir sig í eftirlitsbúnaði sem notaður er í vatni, var við prófanir á búnaði sínum við Folsom-vatn nærri Sacramento uppgötvaðist flugvélin á einu dýpsta svæði vatnsins. Talið er að flugvélin sé Piper Comanche 250. Fjórir létust þegar vélin brotlenti fyrir rúmum 56 árum. Lík flugmanns vélarinnar fannst í kjölfarið en líkamsleifar farþeganna þriggja fundust aldrei þrátt fyrir að þeirra hafi verið leitað allt til ársins 2014. 

Vélin uppgötvaðist fyrst á sérstöku sónar-tæki. 

„Ég sá að eitthvað var ekki eðlilegt,“ segir Tyler Atkinson, starfsmaður Seafloor Systems, við fjölmiðla. 

Við nánari skoðun kom í ljós að um flugvél væri að ræða. Sögulega lágt yfirborð vatnsins gerði starfsmönnum Seafloor Systems kleift að taka ljósmyndir af skrúfu vélarinnar. 

Lögregla á svæðinu mun ákveða hvort vélin verði tekin upp úr vatninu. 

Vatnsmagn í Folsom-vatni er nú 38% af því sem hefðbundið er. 

Frétt BBC. 

mbl.is