Hækkuðu tolla á áströlsk vín um 218%

Kínamarkaður er sá stærsti í heimi fyrir áströlsk vín.
Kínamarkaður er sá stærsti í heimi fyrir áströlsk vín. mbl.is

Ástralar segjast munu leggja fram kvörtun til Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar (WTO) vegna þess að Kínverjar hækkuðu tolla á áströlsk vín um 218% á síðasta ári. Kínverjar segja að tollar hafi verið hækkaðir vegna vafasama viðskiptahátta Ástrala, sem Ástralar þvertaka fyrir að stunda.

Áströlsk yfirvöld segjast tilbúin til þess að setjast með Kínverjum við samningaborðið og útkljá málið með tvíhliða samningum.

Enda er mikið undir, þar sem Kínamarkaður er sá stærsti í heiminum fyrir áströlsk vín og ástralskir vínræktendur segjast hafa fundið verulega fyrir hækkun Kínverjanna.

Saka Ástrali um „dumping“

„Yfirvöld munu halda áfram að berjast ötullega fyrir hagsmunum ástralskra vínbænda í fulltingi þeirra reglna sem Alþjóðaviðskiptastofnunin hefur sett,“ segir Dan Tehan, viðskipta-, fjárfestinga- og ferðamálaráðherra Ástralíu, en BBC greinir frá.

Það sem Kínverjar saka Ástrala um að gera er það sem á ensku kallast „dumping“ sem ólöglegt er að stunda á alþjóðamörkuðum.

„Dumping“ lýsir sér þannig að ríki flytji út vörur sínar til annars ríkis á mun lægra verði en fengist fyrir vörurnar á innlendum markaði. Þannig má bola út samkeppnisaðilum á þeim markaði sem varan er seld til.

mbl.is