Kona lést eftir að rafskútu var ekið á hana

Rafskútur verða sífellt vinsælli.
Rafskútur verða sífellt vinsælli. AFP

Lögregluyfirvöld í Frakklandi leita nú tveggja kvenna í tengslum við rannsókn á mannsláti sem varð í París, höfuðborg landsins, þegar rafskútu var ekið á gangandi vegfaranda.

Hin 31 árs ára gamla Miriam var á göngu meðfram ánni Signu á mánudag þegar ekið var á hana á rafskútunni. BBC greinir frá.

Konurnar tvær sem óku skútunni eru taldar hafa verið á mikilli ferð og ekki stöðvað þegar þær nálguðust Miriam.

Rannsakað sem manndráp

Saksóknari í París segir að málið sé rannsakað sem manndráp, þar sem konurnar tvær óku á brott í stað þess að koma Miriam til aðstoðar.

Miriam skall með höfuðið í jörðina með þeim afleiðingum að hún fékk hjartaáfall. Kafarar frá Signu-deild lögreglunnar í París voru fyrstu viðbragðsaðilarnir á vettvang og hófu endurlífgunartilraunir þegar í stað. Eftir um 30 mínútur tókst þeim að fá hjarta Miriam til þess að slá á ný.

Hún var þá færð meðvitundarlaus á sjúkrahús þar sem hún var í dái þar til hún lést á miðvikudaginn. Miriam var ítalskur ríkisborgari, uppalin í Capalbio-héraði nærri Toscana. Hún vann sem þjónn á ítölskum veitingastað í París.

Málið hefur vakið mikla umræðu í París þar sem sprenging hefur orðið í akstri rafskúta, rétt eins og hér á Íslandi. Sumum rafskútum má aka á allt að 50 km hraða á klukkustund og geta þær skapað hættu fyrir aðra vegfarendur, sérstaklega gangandi, þar sem þeim er gjarnan ekið á göngustígum en ekki akbrautum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert