Bandaríkin undirbúa viðskiptaþvinganir gegn Rússum

Bandaríkin undirbúa víðtækari viðskiptaþvinganir gegn Rússum.
Bandaríkin undirbúa víðtækari viðskiptaþvinganir gegn Rússum. AFP

Bandaríkin undirbúa nýjar viðskiptaþvinganir á hendur Rússum vegna eitrunar sem beitt var gegn stjórnaandstæðingi Pútíns, Alexei Navalní, samkvæmt ráðgjöfum Hvíta hússins.

Navalní situr nú í fangelsi en hann var handtekinn í janúar þegar hann sneri aftur til Rússlands eftir dvöl á sjúkrahúsi í Þýskalandi þar sem hann var að jafna sig á eitruninni. Hann segir eitrunina hafa verið skipulagða af ráðamönnum í Moskvu.

Stjórnmálasamband Rússlands og Bandaríkjanna hefur versnað eftir að Joe Biden varð forseti í janúar.

Þjóðaröryggisráðgjafar Bidens segja að Bandaríkin hafi nú þegar beitt viðskiptaþvingunum gegn Rússum vegna eitrunar Navalní.

„Við fengum stuðning frá bandamönnum okkar í Evrópu til þess að beita sameiginlegum viðskiptaþvingunum á hendur Rússum fyrir að hafa notað taugaeitur gegn sínum eigin ríkisborgara,“ segir Jake Sullivan, þjóðaröryggisráðgjafi Bidens.

„Við erum að undirbúa víðtækari viðskiptaþvinganir á hendur Rússum. Við höfum sýnt það að við ætlum ekki að halda okkur til hlés,“ segir Jake.

Ætla að svara í sömu mynt

Rússar eru ekki sáttir við þessar hótanir og vöruðu við því að þeir myndu grípa til sambærilegra aðgerða.  

„Lögmæt viðbrögð frá okkur hafa alltaf fylgt ólöglegum viðskiptaþvingunum Bandaríkjanna,“ segir fulltrúi utanríkisráðuneytis Rússlands. 

Anatoly Antonov, sendiherra Rússlands í Bandaríkjunum, segir þetta ekki vera það sem Bandaríkjamenn gáfu í skyn á leiðtogafundinum í Genf í Sviss í síðustu viku.

Anatoly segir að ekki sé hægt að koma stöðugleika á sambandið milli ríkjanna, þegar viðskiptaþvinganir á hendur Rússum eru yfirvofandi. 

Biden og Pútín sóttust eftir því að minnka spennuna milli ríkjanna á leiðtogafundi í síðustu viku. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert