Demantarnir reyndust kvartssteinar

Demantur sem reyndist síðan kvartssteinn.
Demantur sem reyndist síðan kvartssteinn. AFP

Ríkisstjórn Suður-Afríku segir steinana sem fundust í smábæ þar í landi í síðasta mánuði vera kvartssteina en ekki demanta eins og upphaflega var haldið. Þetta segir á vef BBC.

Nautgripahirðir fann steinana í KwaZulu-Natal-héraði og varð fundurinn til þess að þúsundir flýttu sér til bæjarins KwaHlathi til að koma höndum yfir verðmætin en steinarnir fundust á einu fátækasta svæði Suður-Afríku. Bærinn er staðsettur í um 300 kílómetra fjarlægð frá Jóhannesarborg.

Eftir frekari skoðun var ljóst að ekki væri um demanta að ræða heldur kvartssteina sem eru ekki nærri því eins verðmætir og demantar en kvarts er næstalgengasta efnið í jarðskorpunni.

Sökum Covid-19 faraldursins hefur atvinnuleysi aukist mjög í Suður-Afríku. Þar hafa greinst fleiri tilfelli Covid-sjúkdómsins en í nokkru öðru landi í heimsálfunni. Staðfest smit eru 1,8 milljónir talsins og nærri því 60.000 hafa látið lífið.

mbl.is