Lík bandarískrar konu fannst austur af Moskvu

Rússnesk lögregla og þjóðvarðliðar í Moskvu.
Rússnesk lögregla og þjóðvarðliðar í Moskvu. AFP

Rússneska lögreglan hefur handtekið mann eftir að lík bandarískrar konu fannst nærri borginni Nisní Novgorod, austur af Moskvu.

Líkið er af Catherine Serou, sem var 34 ára og flutti til Rússlands árið 2019 til að nema lögfræði. Síðustu samskipti sem vitað er til að hún hafi haft voru við móður hennar, en hún sendi henni textaskilaboð síðdegis á þriðjudag:

„Er í bíl með ókunnugum. Vona að ekki sé verið að ræna mér.“

Löng saga afbrota

Maðurinn sem var handtekinn á sér langa sögu alvarlegra afbrota að sögn rússnesku lögreglunnar.

Móðir Serou, Beccy, hefur tjáð bandarískum fjölmiðlum að dóttir hennar hafi verið að flýta sér að snúa aftur á heilsugæslustöð, þar sem greiðsla hafði ekki farið í gegn, og að hún gæti hafa tekið sér far með bíl í stað þess að bíða eftir bíl frá Uber.

Catherine Serou hugðist snúa aftur til Bandaríkjanna og starfa þar sem lögfræðingur í innflytjendamálum, að því er fram kemur í umfjöllun BBC.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert