Ræktaði óvart dýrasta mangó í heimi

Mangó.
Mangó. mbl.is/akc.org

Bóndi á Indlandi ræktaði óvart dýrasta mangó í heimi. Hann hefur ráðið þrjá menn og níu hunda til að standa vörð um ávöxtinn.

Bóndinn, sem heitir Sankalp Singh Parihar, var á leið sinni til Chennai-borgarinnar í suðurhluta Indlands, til að leita að sérstökum kókoshnetufræjum þegar hann gaf sig á tal við sætisfélaga sinn í lestinni. Sá bauð bóndanum að kaupa af sér sérstaka ungplöntu af mangóætt fyrir 2.500 indverskar rúpíur, sem jafngildir rúmlega 4.000 íslenskum krónum miðað við gengið í dag. Fyrir forvitnissakir ákvað Parihar að taka tilboðinu, segir í frétt VICE.

„Ég vissi ekki hvaða tegund af mangóplöntu þetta var en ég gaf henni nafnið Damini, í höfuðið á móður minni. Svo fór ég heim og gróðusetti plöntuna,“ segir Parihar í samtali við VICE. „Ég hugsaði um hana eins og um hefðbundna mangóplöntu væri að ræða en eftir nokkra mánuði tók ég eftir að mangóin sem hún gaf af sér voru fallega rauð á litinn.“

Afar sjaldgæft afbrigði

Þegar fréttirnar um þetta óvenjulega mangó bóndans spurðust út sóttu viðskiptamenn frá Surat og Mumbai að bóndanum. „Þegar þeir buðust til að kaupa plöntuna fyrir 21.000 rúpíur áttaði ég mig á að ég væri með eitthvað verðmætt í höndunum,“ segir Parihar.

Mangóið sem um ræðir er hið japanska miyazaki-mangó sem er sagt vera dýrasta mangótegund í heimi.

Þessi tiltekna mangótegund sem einnig er þekkt sem „sólareggið“ hefur oft verið á uppboði í Japan. Árið 2019 seldust tveir kassar af miyazaki-mangóum fyrir hálfa milljón japanskra jena sem jafngildir hálfri milljón íslenskra króna miðað við gengið í dag, samkvæmt japanska fréttamiðlinum Asahi Shimbun. Gangverðið á einu miyazaki-mangói er í kringum 6.000 kr. og er það talið vera lúxusgjöf á borð við gæðakonfekt.

Það sem einkennir þessa tilteknu tegund af mangói er dísætt bragðið af því og djúprauður litur hýðis þess. „Safinn er hlaupkenndur og liturinn sérstaklega fallegur. Það er meira að segja hægt að borða hýðið,“ segir Parihar.

Menn og hundar standa vörð um ávöxtinn

Að sögn Parihar vill hann gera ræktun á þessu heimsins dýrasta mangó aðgengilegri fyrir indverska bændur.

„Ég vil að hvert eitt og einasta heimili á Indlandi geti keypt þetta mangó,“ segir hann.

Fram að þessu hefur Parihar tekist að rækta um 52 mangó á ekrunni sinni. Þrátt fyrir verðmæti þeirra liggur bóndanum og konu hans ekki á að selja mangóin eftirsóttu. 

„Mangóplönturnar eru eins og börnin okkar. Við ætlum að einbeita okkur að því að hugsa vel um þær plöntur sem við eigum svo við getum notað fræin af þeim til að rækta fleiri,“ segir Parihar.

Eftir sjónvarpsumfjöllun indverskrar fréttastofu um mangóræktun hjónanna lentu þau í óheppilegu atviki þar sem þjófur kom til þeirra í húmi nætur og stal af þeim fjórtán mangóum.

„Eftir þetta réðum við teymi af mönnum og níu hunda sem standa nú vörð um mangóin,“ segir Parihar. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert