Styrkti krabbameinssamtök og greindist síðar sjálf

Hin 15 ára gamla Kiya greindist með fjórða stigs krabbamein …
Hin 15 ára gamla Kiya greindist með fjórða stigs krabbamein ári eftir að hún rakaði hár sitt og gaf það til samtaka, sem gera hárkollur úr því fyrir langveik börn. Ljósmynd/BBC

Bresk stúlka á táningsaldri, sem áður rakaði af sér hárið og gaf það til þarlendra krabbameinssamtaka, greindist ári síðar með krabbamein sjálf.

Hún sat lokapróf í vor, sama dag og hún greindist með fjórða stigs eitilfrumuæxli.

Í viðtali við BBC segir hin 15 ára gamla Kiya, að hún hafi séð myndbönd af ungum stúlkum með krabbamein fá hárkollur að gjöf. Þá ákvað hún að hún vildi gefa sitt hár til góðgerðarmála af því henni finnst mikilvægt og gott að geta „fengið einhvern til að brosa“.

Hugsar enn mikið um aðra

„Ég tók fyrst eftir hnúði aftan á hálsinum, sem fór síðan ört stækkandi og varð að lokum á stærð við vínber. Það var þá sem ég tók eftir öðrum hnúð hinum megin á hálsinum,“ segir Kiya.

„Þegar ég fékk fréttinar hugsaði ég með sjálfri mér: „Ok, nú þarf ég bara að halda áfram og einbeita mér að því að ná bata.““

Hena, móðir Kiyu, gekk ansi hart fram í því að dóttir hennar gengist undir læknisskoðun, að hennar sögn.

„Í gær, til dæmis, kom hún til mín og sagði: „Mamma, ég held að þú þurfir farðmlag.“ Hún hugsar alltaf vel um alla í kringum sig,“ segir Hena um dóttur sína.

Kiya er nú í lyfjameðferð við krabbameininu og fór hár hennar að þynnast vegna þessa.

„Eitt sinn er ég þvoði á mér hárið, þá rann upp fyrir mér að ég væri að missa það. Ég fékk mína eigin hárkollu, sem betur fer, og þegar ég fékk hana þá hugsaði að það væri best að raka hárið bara allt af, sem ég svo gerði.“

Hena segir að það sé sérstaklega erfitt að horfa upp á dóttur sína berjast við krabbamein. Nógu erfitt hafi verið að fylgjast með föður sínum glíma við sama sjúkdóm.

„Þegar hún á slæman dag segir móðir mín við mig: „Sjáðu, pabbi þinn komst í gegnum þetta og það er í lagi með hann.““

Vill halda áfram að gefa

Kiya fékk hárkollu að gjöf frá góðgerðarsamtökunum Little Princess Trust og nú safnar hún fé til styrktar fleiri samtökum.

„Þessi samtök eru alveg hreint ótrúleg, að mínu mati,“ segir Kiya sem safnað hefur yfir 22 þúsund pundum (3,7 milljónum króna) til styrktar góðgerðarsamtaka.

Kiya vill að fleiri íhugi að gefa hár sitt til góðgerðarmála, í stað þess að það fari bara í ruslið þar sem það nýtist engum.

„Ég vona að ég nái að safna enn meiri peningum fyrir góðgerðarsamtök, jafnvel eftir að meðferð minni lýkur mun ég halda áfram að safna fyrir öll þessi ótrúlegu samtök sem til eru og hafa hjálpað mér svo mikið,“ segir Kiya að lokum.

mbl.is