Telja sig hafa fundið lík hermannsins

Hermenn tóku þátt í leitinni.
Hermenn tóku þátt í leitinni. AFP

Talið er líklegt að lík, sem fannst í dag í austurhluta Belgíu, sé af öfgasinnaða hermanninum Jür­gen Con­ings. Hann hvarf eftir að hafa stolið vopnum frá herstöð og haft í hótunum við opinbera embættismenn í Belgíu.

Einn helsti veiru­sér­fræðing­ur Belga, Marc Van Ranst, þurfti til að mynda að dvelja í skjóls­húsi í fleiri vikur ásamt eig­in­konu og tólf ára syni vegna hót­ana Conings.

„Dánarorsök er líklega, samkvæmt fyrstu athugunum, sjálfsvíg með skotvopni,“ segir í yfirlýsingu saksóknara þar í landi.

Hundruð leituðu Conings

Hundruð lögreglu- og hermanna voru kölluð út í síðasta mánuði til að leita Conings eftir að bifreið hans fannst yfirgefin nærri landamærunum við Holland. Í bifreiðinni fundust fjórar sprengjuvörpur.

Conings gegndi herþjónustu í Kósovó, Írak og Afganistan. Fyrstu fregnir af líkfundinum í dag bárust þegar bæjarstjóri nokkur sagðist í morgun hafa fundið líkið á hjólaferð sinni um skóginn þar sem bifreiðin hafði fundist.

mbl.is