Umdeildustu ummæli Bolsonaros

Jair Bolsonaro, forseti Brasilíu.
Jair Bolsonaro, forseti Brasilíu. AFP

Jair Bolsonaro, forseti Brasilíu, hefur endurtekið reynt að gera lítið úr kórónuveirufaraldrinum, dregið í efa aðgerðir til þess að hefta útbreiðslu hans, dreift efasemdum um öryggi bóluefna og komið með sín eigin ráð um hvernig best sé að takast á við Covid-19-sjúkdóminn.

Fréttastofa AFP hefur tekið saman nokkur af hans umdeildustu ummælum á tímum faraldursins:

„Hvernig ég skil þetta, þá er verið að gera alltof mikið úr því hve hættulegur Covid-19-sjúkdómurinn er. Kannski er verið að gera svona mikið úr þessu ástandi af efnahagslegum ástæðum.“

(9. mars 2020. 25 Covid-smit í Brasilíu, enginn látinn)

„Hagkerfið okkar gekk vel þangað til þessi veira olli móðursýki í landinu. Það eru ríkisstjórar, eins og ég skil það, og ég gæti haft rangt fyrir mér, sem eru að taka ákvarðanir sem gætu valdið miklum skaða fyrir hagkerfið í landinu.“

(17. mars 2020. Fyrsti látinn í Brasilíu)

„Fyrir 90% af íbúum landsins verður þetta lítil flensa eða ekkert.“

(27. mars 2020. Færri en 100 látnir í Brasilíu)

„Það lítur allt út fyrir það að veiran sé farin.“

(12. apríl 2020. 1200 látnir í Brasilíu)

„Hvað með það? Mér þykir þetta leitt. Hvað viljiði eiginlega að ég geri? Ég er Messiah (millinafn Bolsonaros) en ég get ekki gert nein kraftaverk.“

(28. apríl 2020. 5000 látnir í Brasilíu)

„Ég vorkenni þeim látnu, ég vorkenni þeim. Við munum öll deyja einn daginn, allir hérna munu deyja. Það er enginn tilgangur í því að reyna að forðast dauðann, forðast raunveruleikann. Þið þurfið að hætta að vera land fullt af hinsegin fólki (e. queers).“

(10. nóvember 2020. 163.000 látnir í Brasilíu)

„Ef þú breytist í krókódíl, þá er það þitt vandamál. Ef þú breytist í Súpermann, ef konum vex skegg eða ef maður byrjar að tala með hátónaröddu, þá hefur rannsóknarstofan ekkert með það að gera.“

(18. desember 2020. 185.000 látnir í Brasilíu)

„Rannsóknir sýna að grímur hafa slæm áhrif á börn. Þær valda ertingu, hausverkjum, einbeitingarleysi, þunglyndi, mótþróa, minni getu til þess að læra og þreytu.“

(25. febrúar 2021. 250.000 látnir í Brasilíu)

„Við erum að fara í gegnum heimsfaraldur sem er, að hluta til, notaður í pólitísku skyni, ekki til þess að sigra veiruna heldur til þess að steypa af stóli forseta landsins.“

(7. apríl 2021. 340.000 látnir í Brasilíu)

„Ég smitaðist af Covid-19 og ég tók bara hýdroxýklórókín. Kannski er ég eini forsetinn sem notaði það úrræði, ég er ekki að fara láta veiruna sigra mig, ég er þrjóskur, ég er þrautseigur.“

(11. júní 2021. 484.000 látnir í Brasilíu)

mbl.is