Ákærð fyrir að myrða stjúpföður sinn

Bacot mætir í réttarsal í dag.
Bacot mætir í réttarsal í dag. AFP

Réttarhöld yfir Valerie Bacot, franskri konu sem myrti stjúpföður sinn sem misnotaði hana í á þriðja áratug, hefjast í Burgundy í dag. Mál Bacot hefur skapað heitar umræður um ofbeldi gegn konum í Frakklandi.

Búist er við að réttarhöldin standi yfir út föstudag. 

Bacot, sem er í dag 40 ára, var tólf ára þegar maður móður hennar og stjúpfaðir, Daniel Polette, sem var 25 árum eldri en hún, nauðgaði henni í fyrsta sinn. Hann fékk fangelsisdóm fyrir nauðgunina en sneri aftur á heimili mæðgnanna þegar hann var látinn laus úr haldi og beitti Bacot ítrekuðu kynferðisofbeldi. Þegar Bacot var 17 ára varð hún ólétt og henni hent út af heimili móður sinnar. Hún fór þá og bjó með Polette, sem hún giftist síðar. 

Polette beitti Bacot ítrekuðu ofbeldi og seldi hana í vændi. Bacot segir að Polette hafi hótað henni lífláti hlýddi hún ekki fyrirskipunum hans. 

Í mars 2016, eftir að Polette hafði fyrirskipað Bacot í enn eitt skipti að selja sig í hans þágu, skaut hún hann til bana einu skoti aftan á hálsinn. Hún faldi lík hans með aðstoð barna sinna í nærliggjandi skógi. Hún var handtekin í október 2017 og játaði á sig morðið. 

Lögmenn Bacot voru einnig verjendur Jacqueline Sauvage, franskrar konu sem fékk 10 ára fangelsisdóm fyrir að myrða ofbeldisfullan eiginmann sinn en var náðuð af Francois Hollande árið 2016 eftir að hafa setið inni í þrjú ár. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert