Endurbyggja andlit níu ára drengs eftir híenuárás

Rodwell Khomazana, 9 ára drengur frá Simbabve, afskræmdist mjög í …
Rodwell Khomazana, 9 ára drengur frá Simbabve, afskræmdist mjög í andliti þegar hópur híena réðst á hann fyrir um mánuði síðan. Skurðlæknar í Jóhannesarborg ætla að endurbyggja andlit hans. AFP

Lýtalæknar í Suður-Afríku hyggjast endurbyggja andlit níu ára gamals drengs sem varð fyrir árás hýena í síðasta mánuði. Skurðaðgerðin fer fram síðar í dag. 

Rodwell Khomazana, sem er frá Simbabve, missti nefið, vinstra augað, stóran hluta af efri vörinni og hluta af enninu, ásamt öðrum andlitspörtum, í árásinni. Hann var viðstaddur helgiathöfn utandyra í Harare, höfuðborg Simbabve, þegar árásin átti sér stað.  

Læknar á spítala í borginni gerðu sitt besta til að laga andlit Khomazana en skorti til þess búnað. Móðir Khomazana hafði ekki efni á sérhæfðri aðgerð fyrir son sinn og leitaði hún til lækna í Suður-Afríku sem samþykktu að taka drenginn að sér án endurgjalds. 

„Þegar hún sagði sögu aumingja drengsins gat ég ekki sagt nei,“ segir lýtalæknirinn Ridwan Mia í samtali við AFP-fréttastofuna. 

Rodwell Khomazana kom til Jóhannesarborgar á laugardag og fékk höfðinglegar …
Rodwell Khomazana kom til Jóhannesarborgar á laugardag og fékk höfðinglegar móttökur frá starfsfólki spítalans. AFP

Khomazana kom til Jóhannesarborgar á laugardag og fékk hann höfðinglegar móttökur frá starfsfólki spítalans sem söng suðurafríska þjóðsönginn íklætt bolum með teikningu af Khomazana. 

Mia og skurðlæknalið hans munu í fyrstu kanna ástand Khomazana og í kjölfarið er búist við að endurbygging andlitsins taki um 20 klukkustundir. Vefur úr öðrum líkamshlutum drengsins verða notaðir til að endurbyggja kjálka, nef, munn og kinnar hans. Auk þess fær hann gerviauga. 

„Því miður verður hann með fjölda öra á andlitinu,“ segir Mia, en tilgangur aðgerðarinnar er samt sem áður að draga úr öramyndun. Helsta markmiðið, að sögn Mia, er að Khomazana geti gert hluti sem jafnfaldrar hans geti og að honum muni líða „eins og eðlilegum dreng aftur“.

mbl.is