Vill færa úrslitaleikinn frá Wembley

Mario Draghi, forsætisráðherra Ítalíu. Ítalir hafa gert gott mót á …
Mario Draghi, forsætisráðherra Ítalíu. Ítalir hafa gert gott mót á EM. AFP

Mario Draghi, forsætisráðherra Ítalíu, segist þeirrar skoðunar að úrslitaleikur EM 2020 eigi ekki að fara fram á Wembley leikvanginum í London sökum þess hve smitum fer fjölgandi í Englandi.

„Ég er á því að tryggja eigi að úrslitaleikurinn fari ekki fram í landi þar sem að smithætta er veruleg,“ sagði Draghi á sameiginlegum blaðamannafundi með Angelu Merkel, kanslara Þýskalands, í Berlín.

Draghi er ekki fyrsti þjóðarleiðtoginn til þess að viðra þessa skoðun. Áðurnefnd Merkel hafði áður vakið athygli á þessu og Emmanuel Macron Frakklandsforseti hafði einnig viðrað áhyggjur sínar af ástandinu í Englandi.

„Við þurfum að hafa augun opin fyrir þessu, liðanna og áhorfendanna vegna, sér í lagi vegna hraðrar útbreiðslu Delta-afbrigðisins í Bretlandi,“ sagði Macron.

Boris Johnson, forsætisráðherra Bretlands.
Boris Johnson, forsætisráðherra Bretlands. AFP

UEFA skoðar málin 

Boris Johnson, forsætisráherra Bretlands, sagði á föstudag að það væri forgangsatriði að „halda landinu öruggu“. Þá herma heimildir ytra að Knattspyrnusamband Evrópu væri með það til skoðunar að færa undanúrslitaleikina og úrslitaleikinn frá Wembley og til Búdapest.   

Delta-afbrigðið, sem uppgötvaðist fyrst á Indlandi, hefur valdið hækkandi smithættu í Bretlandi undanfarna daga og olli því að stjórnvöld þar í landi seinkuðu niðurfellingu samkomutakmarkana.

mbl.is