Norskir fangar reyna munklífi

Retreat-meðferðin byggist á þögninni, bæninni, sjálfsskoðun og daglegum samtölum við …
Retreat-meðferðin byggist á þögninni, bæninni, sjálfsskoðun og daglegum samtölum við prest og er gerður svo góður rómur að í Halden að norsk fangelsisyfirvöld hyggjast nú bjóða föngum um allan Noreg að sækja um að koma til Halden og reyna lífsstíl byggðan á klausturreglum miðalda. Ljósmynd/Litteraturhuset.no

„Ég hef reynt fjölmargar mismunandi meðferðir. Þetta er það sem hefur gefið mér langmest,“ segir „Robin“, fangi á fertugsaldri í Halden-fangelsinu í Noregi í samtali við norska ríkisútvarpið NRK. Robin, sem situr inni fyrir manndráp, kemur ekki fram undir sínu rétta nafni og á við meðferð byggða á siðum munkareglna sem hefur gefist svo vel í Halden að föngum um allan Noreg býðst nú að reyna hana.

Munklífið í fangelsinu felst í því að fangarnir lifa í þögn í þrjár vikur í senn, um 500 klukkustundir, segja ekki eitt aukatekið orð fyrir utan að þeir ræða við prest einu sinni á dag. Þeir neyta máltíðar í þögn með samföngum sínum og sameinast í bæninni, sem presturinn flytur.

Þagnarmeðferðin kallast „retreat“ sem meðal annars má þýða sem athvarf. Heilli deild í Halden-fangelsinu hefur verið breytt til að rúma þá fanga sem takast á við þögnina og bænina með sjálfum sér. Þar eru til dæmis engin sjónvörp lengur.

Horfir inn á við

„Hér er ekki hægt að svindla,“ segir Robin. Þögnin og samtölin við prestinn hafi neytt hann til að horfa inn á við og takast á hendur sjálfsskoðun eftir líf á öndverðum meiði við lög og reglu.

Í Halden var þagnarmeðferðin tekin upp árið 2013 eftir að hún hafði gefið góða raun í Svíþjóð og nú hefur hún gefist svo vel í Halden, þennan tæpa áratug sem liðinn er, að norsk fangelsisyfirvöld hyggjast bjóða föngum um allt land að fara að dæmi strangra og fornra klausturreglna. Þeim býðst þá að sækja um meðferðina og eru fluttir til Halden á meðan, á þagnardeildina sérútbúnu.

Aðeins einn þeirra 40 fanga, sem farið hafa gegnum athvarfs-meðferðina í Halden-fangelsinu og í kjölfarið lokið afplánun, hefur brotið af sér á nýjan leik. „Við höfum séð fangana upplifa mjög jákvæða reynslu,“ segir Are Høidal fangelsisstjóri. „Þetta hefur áhrif á þá og þeir upplifa vissa hreinsun í lífi sínu.

Gert er ráð fyrir að 60 fangar geti ár hvert nýtt sér meðferðina í Halden og þótt hún byggist á kristnum gildum og biblíunni stendur hún öllum opin, hver sem trú viðkomandi er. „Hér er ekki ætlunin að kristna fólk. Múslimar halda áfram að vera múslimar og trúleysingjar verða áfram trúleysingjar. Það er hreinsunarferlið þessar vikur sem er höfuðmálið. Það gerir eitthvað við manneskjuna,“ segir fangelsisstjórinn og mun þess skammt að bíða að retreat bjóðist einnig kvenföngum landsins.

Kemur samfélaginu til góða

Marit Skartveit er fangelsisprestur í Halden auk þess sem hún starfar í norska Hjálpræðishernum. Skartveit hefur kynnst mörgum fanganum vel síðustu ár. „Vonin er að þetta geri gæfumun fyrir þá sem taka þátt. Eins kemur það samfélaginu til góða lifi fólk betra lífi á eftir,“ segir hún.

Eðlilega eiga margir þeirra, sem þagnarmeðferðina reyna, margra ára afplánun fyrir höndum þótt meðferðinni ljúki. „Richard“ segir vikurnar í meðferðinni engu að síður hafa gert honum gott. „Þetta snýst um að mæta sjálfum sér. Þegar maður gerir það er það ekki endilega nein skemmtun og þá er gott að hafa aðra í kringum sig sem hjálpa manni að komast yfir hlutina,“ segir hann.

Robin, sem vitnað var í í upphafi, telur það geta haft jákvæðar breytingar í för með sér í norskum fangelsum að fleiri fangar fái að reyna það sem hann reyndi í meðferðinni. „Ég hugsa að við munum sjá fleiri fanga takast á við sína breytni í lífinu og því fylgi ef til vill ósk um að verða örlítið betri manneskja,“ segir hann.

NRK

NRKII (viðtal við tvo fanga í nóvember 2018)

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert