Fá ekki að hitta fársjúkan föður fyrr en eftir sóttkví

Allir farþegar sem koma til Ástralíu, jafnvel þeir sem millilenda, …
Allir farþegar sem koma til Ástralíu, jafnvel þeir sem millilenda, þurfa að fara í 14 daga sóttkví. AFP

Ríkisstjórn Ástralíu hefur veitt bandarískum hjónum undanþágu til að ferðast til landsins til að heimsækja föður mannsins sem liggur banaleguna. Yfirvöld í Queensland-ríki í landinu hafa aftur á móti neitað að veita hjónunum undanþágu frá sóttkvíarreglum og þurfa þau að vera í tveggja vikna einangrun á hóteli.  

Mark Kilian og Anneli Gericke reyna nú allt sem þau geta til að fá umrædda undanþágu í ljósi þess að faðir Kilians, sem hefur háð baráttu við krabbamein í brisi, á skammt eftir. Hingað til hafa þau fengið fjórar neitanir, en sóttkvínni lýkur 29. júní. 

Talsmaður yfirvalda í Queensland segir nauðsynlegt að virða þessar reglur. Ríkið þurfi fyrst og síðast að gæta að lífi og heilsu íbúa ríkisins. Hann segir enn fremur að stefna Queensland í sóttvarnamálum hafi skilað góðum árangri í baráttunni við Covid-19, að því er fram kemur í umfjöllun á vef BBC.

„Þetta snýst ekki um mannúð íbúa í Ástralíu. Þetta snýst um heilmikið skriffinnskuslys. Þetta virkar afar harðneskjulegt,“ segir Kilian í samtali við BBC. 

Faðir Kilians greindist með krabbamein í september sl. en honum hefur hrakað mjög í þessum mánuði og því töldu hjónin nauðsynlegt að vera hjá honum. 

mbl.is