Gera DNA-gagnagrunn fyrir hunda

Aukning hefur verið á símhringingum í neyðarlínuna 999 um hundaþjófnað …
Aukning hefur verið á símhringingum í neyðarlínuna 999 um hundaþjófnað í Bretlandi. AFP

Hundaþjófnaður er vandi sem hrjáði íbúa Bretlands í auknum mæli þegar öllu var skellt í lás vegna útgöngubanna þar í landi í kjölfar kórónuveirufaraldursins. Nú hefur lögreglan hafið aðgerð í tilraun til að takast á við vandamálið með því að setja upp DNA-gagnagrunn fyrir hunda.

Lögreglan í Gloucester-skíri á Vestur-Englandi sagði í dag að þar væri um að ræða fyrstu lögreglusveitina í heiminum sem geymdi erfðamerki hunda til að geta rannsakað tilkynnta þjófnaði og þannig skilað gæludýrunum aftur til síns heima.

Bretland hefur lengi verið þekkt fyrir að vera þjóð hundaunnenda en þegar heimsfaraldurinn skall á fjölgaði gríðarlega símhringingum í neyðarlínuna 999 með erindum um hundaþjófnað.

Eftirspurn gæludýranna jókst á tímabilinu og verð á hundum, bæði hvolpum og eldri hundum, náði nýjum hæðum. Það laðaði þar af leiðandi ekki einungis peningaþyrsta hundaræktendur heldur einnig þjófa og skipulagða glæpastarfsemi.

Hundar eru í flestum tilvikum álitnir hluti af fjölskyldum fólks.
Hundar eru í flestum tilvikum álitnir hluti af fjölskyldum fólks. RAIGO PAJULA

Segir hunda hluta fjölskyldunnar en ekki bara gæludýr

„Hundaþjófnaður getur haft gríðarleg áhrif á eigandann og alla fjölskylduna, þar sem hundar eru í flestum tilvikum álitnir hluti af fjölskyldum fólks,“ segir tímabundinn yfireftirlitsmaður lögreglunnar, Emma MacDonald. 

„Lögreglustöðin er staðráðin í að gera allt sem hún getur til þess að koma í veg fyrir þjófnaði.“

Samkvæmt kerfinu sem lögreglan notast við er tekið DNA-sýni úr munni hundsins og það geymt í gagnagrunni sem er aðgengilegur lögreglu um allt land til að komast að því hvort hundum hafi verið stolið eða þeir séu týndir.

mbl.is