Líkja dauða Rómamanns við morðið á George Floyd

Myndbandi af lögreglumanni sem krýpur á hálsi Rómamanns hefur verið …
Myndbandi af lögreglumanni sem krýpur á hálsi Rómamanns hefur verið deilt á samfélagsmiðlum í Tékklandi. AFP

Myndbandi af lögreglumanni sem krýpur á hálsi Rómamanns, sem síðar lést í sjúkrabíl, hefur verið líkt við við meðferðina á George Floyd sem lögreglumaður myrti þegar hann kraup á hálsi hans í níu mínútur og 29 sekúndur í maí á síðasta ári.

Í myndbandinu sjást þrír lögreglumann í bænum Teplice í Tékklandi halda Rómamanni við jörðu. Einn lögreglumaðurinn heldur fótum mannsins, annar virðist krjúpa á hálsi hans og sá þriðji reynir að handjárna hann.

„Þeir eru að kæfa hann,“ heyrist kona segja í myndbandinu en maður heyrist segja „þetta er vinnan þeirra“.

Jozef Miker, aktivisti og leiðtogi samfélags Rómafólks í Tékklandi, ræddi við fréttastofu Guardian. „Mér hefur verið sagt að maðurinn hafi heitið Stanislav og verið um 40 ára gamall. Hann bjó á götunni en vann sem öryggisvörður í matvörubúð í grenndinni. Þegar hann sá annan mann eyðileggja bifreið reyndi hann að grípa inn í. Þegar lögreglan kom ýttu þeir Stanislav í jörðina og héldu að hann væri sá sem var að eyðileggja bifreiðina,“ sagði Miker.

Segja andlátið ekki tengjast afskiptum lögreglu

Talsmaður lögreglunnar segir lögregluna hafa brugðist við tilkynningu um tvo menn í slagsmálum. Á vettvangi hafi þeir fundið slasaðan mann og þegar lögreglan hafi nálgast hann hafi hann bitið og klórað. Þá sagði lögreglan að læknir hefði sagt líklega dánarorsök tengjast vímuástandi mannsins og að endurlífgunartilraunir lögreglunnar hefðu ekki borið árangur. Samkvæmt yfirlýsingu lögreglunnar er ljóst af bráðabirgðakrufningu að andlátið tengist ekki afskiptum lögreglunnar.

Gwendolyn Albert, meðlimur tékkneska ráðsins um málefni Rómafólks, sagði samfélag Rómafólks hneykslað og reitt og að málið væri líkt máli George Floyds. „Opinber skýrsla lögreglunnar leggur áherslu á eiturlyfjanotkun manns sem síðar dó. Ef ekki væri fyrir það að áhorfendur tóku upp myndbandið myndi almenningur ekki vita hvað gerðist í raun og veru,“ sagði Albert.

Fordómar gegn Rómafólki

Fordómar gegn Rómafólki í Evrópu hafa verið umfjöllunarefni mannréttindasamtaka. Slík samtök hafa gagnrýnt tékknesk yfirvöld fyrir að hafa ekki safnað yfirgripsmiklum gögnum um misrétti Rómafólks í eigin landi.

Samkvæmt rannsókn sem Evrópunefndin gegn kynþáttafordómum og skorti á umburðarlyndi (ECRI) framkvæmdi árið 2012 er að finna í Tékklandi og Ítalíu stærsta hlutfall mismununar í starfsráðningum meðal Rómafólks. 60% þátttakenda sögðust finna fyrir fordómum vegna þjóðernis. Þá er Rómafólk í Tékklandi fjórum til fimm sinnum líklegra til að lýsa sjálfu sér sem atvinnulausu en fólk sem er ekki Rómafólk.

Skýrsla frá Amnesty International sagði Rómabörn í tékkneskum skólum verða fyrir „hryllilegum kerfisbundnum fordómum“ vegna aðskilnaðarstefnu sem getur leitt til frekari fordóma í samfélaginu, að því er fram kemur í umfjöllun Guardian.

mbl.is