Segjast hafa skotið að skipi breska sjóhersins

Eitt af skipum breska sjóhersins.
Eitt af skipum breska sjóhersins. HANDOUT

Rússneska varnarmálaráðuneytið sagði í yfirlýsingu rétt í þessu að rússneskt varðskip hefði skotið viðvörunarskotum að skipi breska sjóhersins, HMS Defender, og orrustuþota varpað fjórum sprengjum í veg fyrir skipið. Varnarmálaráðuneyti Bretlands neitar hins vegar að skotið hafi verið á skipið og segir það hafa verið í lögsögu Úkraínu. 

Að sögn Rússa var skip Breta komið inn í landhelgi Rússa nálægt Krímskaga. Rússland innlimaði Krímskaga frá Úkraínu árið 2014 og hefur atvikið verið fordæmt af Vesturlöndum sem telja landsvæðið enn í eigu Úkraínu. 

Að sögn rússneska varnarmálaráðuneytisins hörfaði skip Breta við skotin. 

mbl.is