12 hæða íbúðahús hrundi að hluta

12 hæða íbúðahús í Surfside í Flórída hrundi að hluta …
12 hæða íbúðahús í Surfside í Flórída hrundi að hluta í nótt. Um 100 íbúðir eru í húsinu. Ekki er ljóst hversu margar eru slasaðir. Ljósmynd/Twitter

Umfangsmiklar björgunaraðgerðir standa yfir í Miami-Dade-sýslu í Flórída eftir að 12 hæða bygging hrundi að hluta í nótt. 

Um hundrað íbúðir eru í húsinu sem stendur við Collins Avenue í bænum Surfside, um tíu kílómetra norður af Miami Beach. 

Fjölmiðlar vestanhafs segja ljóst að einhverjir eru slasaðir. ABC-fréttastofan fullyrðir að að minnsta kosti átta manns hafi verið fluttir á sjúkrahús. Óttast er að fjöldi fólks sé fastur undir rústunum. 

Fréttamaður AP fullyrðir á Twitter að kona hafi látist þegar húsið hrundi og 10 ára dreng hafi verið bjargað. 

Um 80 slökkvi- og sjúkraflutningabílar frá slökkviliði sýslunnar eru á staðnum en útkallið barst klukkan tvö að staðartíma í nótt, eða um klukkan sex í morgun að íslenskum tíma. Lögreglan aðstoðar einnig við björgunaraðgerðir.


Fréttin hefur verið uppfærð.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert