Giuliani sviptur lögmannsréttindum

Rudy Giuliani hefur verið sviptur lögmannsréttindum sínum tímabundið.
Rudy Giuliani hefur verið sviptur lögmannsréttindum sínum tímabundið. AFP

Rudy Giuliani, fyrrverandi lögmaður Donalds Trumps, hefur tímabundið misst lögmannsréttindi sín í New York-ríki í Bandaríkjunum. Giuliani var eitt sinn einn fremsti saksóknari ríkisins og var einnig borgarstjóri New York-borgar á árunum 1994 til 2001. Þetta kemur fram í umfjöllun New York Times um málið.

Giuliani hefur verið sviptur lögmannsréttindum sínum tímabundið en gæti þó misst þau fyrir fullt og allt. Þetta kemur í kjölfar þess að dómstólar í New York úrskurðuðu að hann hefði farið með „ósannindi og misvísandi fullyrðingar“ í kjölfar forsetakosninganna þar ytra í nóvember.

Giuliani var á þeim tíma lögmaður fyrrverandi forseta Bandaríkjanna, Donalds Trumps, en þeir börðust með kjafti og klóm til þess að reyna að vefengja úrslit kosninganna.

Dregið úr lögmæti kosninganna

Áfrýjunardómstóll New York svipti Giuliani réttindum sínum tímabundið að ráði aganefndar. Nefndin taldi hann hafa reynt að hafa áhrif á dómara, þingmenn og almenning í orðræðu sinni í kjölfar kosninganna en Giuliani hélt því fram að kosningasvindl hefði átt sér stað.

Kom fram í dómsúrskurði að framganga hans hefði verið „ógn“ við almenning og hann hefði með beinum hætti „kynt undir“ þeim loga sem síðar varð að óeirðunum við þinghúsið í janúar.

Einnig kom fram í úrskurðinum að „ekki væri hægt að ítreka nægilega alvarleika og óumdeilanlegt háttsemisbrot Giulianis“.

„Það er verið að slíta bandarísku þjóðina í sundur vegna sífelldra ásakana um ólögmæti forsetakosninganna í fyrra og með því að draga úr lögmæti sitjandi forseta, Josephs R. Bidens,“ segir í úrskurðinum.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert