Handtóku tvær konur á rafmagnshlaupahjóli

AFP

Franska lögreglan hefur handtekið tvær konur grunaðar um að hafa keyrt á rafmagnshlaupahjóli á ítalskan vegfaranda í París. Vegfarandinn lét lífið í kjölfarið. Lögreglan hafði leitað kvennanna í nokkra daga.

Konurnar tvær eru grunaðar um að hafa flúið vettvang eftir að atvikið átti sér stað hjá ánni Signu rétt eftir miðnætti þann 14. júní. Þær hafa verið ákærðar fyrir manndráp og fyrir að flýja vettvang.

Nokkur umræða hefur orðið í kjölfarið um notkun rafhlaupahjóla á götum borgarinnar, sem iða jafnan af lífi og gangandi vegfarendum.

Myllumerkið #Miriam fór af stað á samfélagsmiðlum og margir kölluðu eftir strangari reglum um hjólin. Rafmagnshlaupahjól hafa verið notuð í París frá árinu 2018 og eru um 15 þúsund hlaupahjól nú til leigu víðs vegar um borgina.

Reglunum sjaldan framfylgt

Vegfarandinn var 32 ára ítölsk kona að nafni Miriam. Hún var gangandi á gangstétt við árbakkann ásamt vinum sínum þegar hún varð fyrir hlaupahjólinu. Hún var flutt á spítala í lífshættulegu ástandi og andaðist tveimur dögum síðar.

Ekki er leyfilegt að nota rafhlaupahjól á gangstéttum í París og aðeins einn einstaklingur má nota hvert hjól í einu. Hins vegar er reglunum sjaldan framfylgt og margir vita ekki af þeim eða brjóta þær.  

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert