Hundruð ómerktra grafa við skóla fyrir börn frumbyggja

AFP

Hundruð ómerktra grafa hafa fundist nærri kaþólskum heimavistaskóla fyrir börn frumbyggja í vesturhluta Kanada. 

Uppgröftur á svæðinu hófst í nágrenni skólans í Marieval í Saskatchewan í lok maí. 

Uppgötvunin kemur í kjölfar þess að líkamsleifar 215 nemenda við annan skóla fyrir börn frumbyggja í Kamlopps í British Columbia fundust í lok maí. Málið olli mikilli reiði í Kanada og víðar og leiddi til ákalls eftir því að kaþólska kirkjan og páfinn bæðust formlega afsökunar á framferði kirkjunnar gagnvart frumbyggjum. 

Eftir uppgröftinn í Kamloops var ákveðið að grafa upp nágrenni annarra skóla fyrir frumbyggja um allt landið. Heimavistarskólinn í Marieval var starfræktur á árunum 1899 til 1997. Leiðtogar ýmissa ættbálka frumbyggja í Kanada segja fundinn í Marieval „algjörlega hræðilegan, en ekki óvæntan“. 

Um 150 þúsund börn frumbyggja, metis og inúíta, voru með valdi flutt á heimavistir þangað til á tíunda áratug síðustu aldar, þar sem börnin voru einangruð frá fjölskyldum sínum, tungumálum og menningu. Fjölmörg börn sættu grimmri meðferð og urðu fyrir kynferðislegri misnotkun og yfir 4 þúsund börn létust á heimavistunum. 

mbl.is