Tæknirisar teknir á teppið

Fimm frumvörp um breytingar á samkeppnislagarammanum verða tekin til umræðu …
Fimm frumvörp um breytingar á samkeppnislagarammanum verða tekin til umræðu í fulltrúadeild Bandaríkjaþings. AFP

Fimm af sex frumvörpum um endurskoðun samkeppnislagarammans í Bandaríkjunum voru samþykkt af dómsmálanefnd fulltrúadeildar Bandaríkjaþings nú snemma í morgun. Frumvörpin snúa að því að taka betur á málum tæknirisanna þar ytra, svo sem Google, Facebook, Apple og Amazon.

Ein af þeim aðgerðum sem frumvörpin myndu fela í sér er að banna stórfyrirtækjunum að auglýsa fremur sínar vörur heldur en vörur samkeppnisaðila. Þetta kemur í kjölfar kvartana þess efnis að stór netfyrirtæki mismuni samkeppnisaðilum. Eitt frumvarpanna myndi banna stóru fyrirtækjunum að kaupa og taka yfir rekstur samkeppnisaðila.

Jerry Nadler, þingmaður Demókrataflokksins í fulltrúadeild Bandaríkjaþings og formaður dómsmálanefndar …
Jerry Nadler, þingmaður Demókrataflokksins í fulltrúadeild Bandaríkjaþings og formaður dómsmálanefndar deildarinnar. AFP

Formaður nefndarinnar, Jerry Nadler, segir frumvörpin miðuð að „nokkrum stórum fyrirtækjum sem hafa orðið lyklaverðir inn á hinn stafræna markað“.

Einnig tók hann fram að í mörgum tilfellum hafi „fyrirtæki og neytendur ekki annars kosta völ en þessi fyrirtæki á netinu“.

Frumvörpin fara nú fyrir fulltrúadeild Bandaríkjaþings og má ætla að umræður um málið verði langar og átakamiklar. Gert er ráð fyrir harðri mótstöðu hagsmunavarða tæknigeirans. Frumvörpin munu svo ávallt þurfa samþykki beggja deilda en demókratar fara með nauman meirihluta í báðum deildum þingsins.

mbl.is