Vísaði lögreglu á lík konu sinnar

Thomas Gotthard.
Thomas Gotthard. Ljósmynd/Lögreglan á Norður-Sjálandi

Íbúum danska bæjarins Frederikssund varð ekki um sel eftir að sérkennilegt mannshvarfsmál kom þar upp mánudaginn 26. október í fyrra. Rúmlega fertugur sálfræðingur við Holbæk-sjúkrahúsið og tveggja barna móðir, Maria From Jakobsen, hafði horfið sporlaust af heimili sínu við Nialsvej að morgni dags, skilið þar farsíma sinn eftir, tölvu og greiðslukort og að því er virtist ekki látið eftir sig önnur boð til fjölskyldu sinnar en miða með skilaboðum um að hún kæmi heim daginn eftir.

Eiginmaður hennar, Thomas Gotthard, sóknarprestur við Ansgar-kirkjuna í Hedehusene, varð hins vegar ekki til að tilkynna lögreglu um hvarf konu sinnar. Það gerði systir hennar daginn eftir að Jakobsen yfirgaf heimili sitt, að því er virtist á bifreið sinni, hvítum Chevrolet Spark sem nú var hvergi finnanlegur, og bað lögregla almenning að svipast um eftir ökutækinu.

Vítissódi og saltsýra

Fimmtudaginn 29. október tilkynnti vegfarandi, sem viðraði hund sinn í Bellahøj-hverfinu í Kaupmannahöfn, að þar stæði bifreiðin mannlaus. Reyndist lykillinn standa í kveikjulásnum, en engar nothæfar vísbendingar fundust um hvað orðið hefði af Jakobsen þrátt fyrir umfangsmikla leit með hundum sem einnig náði til sumarbústaðar hjónanna í Nykøbing auk þess sem leitað var í skóglendi um allt Norður-Sjáland og Hróarskeldufjörðurinn slæddur að hluta.

Ekki leið á löngu uns lögreglu fýsti að vita um ferðir sóknarprestsins tímabilið frá 23. október og fram í nóvember, einkum og sér í lagi 26. október, auk þess sem hún komst yfir myndefni úr öryggismyndavél á bílastæði við endurvinnslustöð frá 6. nóvember klukkan 13:23 sem sýndi prestinn taka stóra fóðurtunnu og flutningatrillu á hjólum úr farangursgeymslu hinnar heimilisbifreiðarinnar og losa sig við þessa hluti í endurvinnslunni.

Við húsleit á heimilinu við Nialsvej í kjölfarið fann lögregla umtalsvert magn vítissóda og saltsýru, sterkra ætandi efna, og í tölvu sinni reyndist sóknarpresturinn hafa forvitnast um leitarorðin „hafdýpi“, „olíutunnur“, „sjálfsvíg“, „hvarf“ og „hreinsiefni“, þó á dönsku. Var Gotthard handtekinn 15. nóvember og úrskurðaður í gæsluvarðhald, grunaður um að hafa myrt eiginkonu sína á óþekktum stað og tíma.

Fjölskyldan bauð greiðslu

Neitaði prestur áburðinum staðfastlega og lögreglan stóð frammi fyrir sakamáli með grunaðan mann, haldbær sönnunargögn, neitun og síðast en ekki síst ekkert lík. „Auðvitað er það von okkar að við finnum Maríu,“ sagði Lau Lauritzen, stjórnandi rannsóknarinnar hjá lögreglunni á Norður-Sjálandi, við danska fjölmiðla í desember. „Við vitum þó ekki hvað verður og þess vegna byggjum við mál okkar einnig upp kringum þann möguleika að hún finnist ekki. Krafan um sönnun um ferðir [Gotthard], ástæðuna og ásetning verður mun þyngri ef við finnum hana ekki.“

Þegar hvorki gekk né rak að finna Jakobsen efndi fjölskylda hennar til fjársöfnunar með það fyrir augum að bjóða greiðslu hverjum þeim sem veitt gæti lögreglu upplýsingar um hvar hana væri að finna, eða í versta falli jarðneskar leifar hennar. Eins var fjármununum ætlað að styrkja börn sálfræðingsins horfna, sem búið höfðu hjá móðurforeldrum sínum síðan faðir þeirra var handtekinn.

„Þessar aðstæður, sem við erum í, snerta alla fjölskylduna tilfinningalega, en eins má ekki gleyma því að tvö börn eru í spilinu, sem þarfnast aðstoðar við að komast í gegnum þetta og þannig kviknaði hugmyndin að söfnuninni,“ sagði Niels From, eiginmaður systur hinnar horfnu, í samtali við TV2 í Danmörku í vetur.

Einn sá heittrúaðasti

Ekki stóð á viðbrögðum við hjálparkalli fjölskyldunnar og bárust henni á skömmum tíma hátt í eitt þúsund framlög frá almenningi. Aldrei kom þó til þess að greiðslan sem lofað var fyrir upplýsingar væri innt af hendi. Maria From Jakobsen virtist vera horfin algjörlega sporlaust.

„Auðvitað hugleiði ég samband mitt við kirkjuna þegar presturinn, sem kenndi mér boðorðin tíu, er grunaður um manndráp,“ sagði Mathias Nicolaisen, sem nú er tvítugur, en var á sínum tíma eitt fermingarbarna Gotthard við Ansgar-kirkjuna, í samtali við Kristeligt Dagblad í janúar. Að sögn Nicolaisen var presturinn hans ein heittrúaðasta manneskja sem hann hafði kynnst um sína daga, en auk þess kvað Nicolaisen hann hafa átt sérstaklega auðvelt með að ná til fermingarbarnanna, hann hafi verið skemmtilegur, gjarnan leikið á gítar eða úkúlele í kirkjunni og verið lunkinn við að tengja frásagnir biblíunnar við daglegt líf fermingarbarnanna sem hann talaði við sem jafningja og lærði nöfn allra á mettíma.

„Ég læt mér auðvitað ekki til hugar koma, að það hafi verið trúin sem ýtti honum þangað, sem hann nú er niðurkominn, en hafi hann gert það, sem honum er gefið að sök, dregur það dálítið úr þeirri von, sem ég hef bundið við kirkjuna vegna þess að hann er einn mesti trúmaður sem ég hef kynnst,“ sagði fermingarbarnið fyrrverandi.

Vísaði lögreglu á líkið

Leið svo veturinn og í apríl töldu lögregla og ákæruvald sig hafa næg gögn í höndunum til að gefa út ákæru á hendur prestinum. Að sögn Lauritzen hafði lögregla þá gert sér nokkuð glögga hugmynd um hvernig og hvar Gotthard hefði framið það ódæði sem honum var borið á brýn.

Það var hins vegar ekki fyrr en nú í byrjaðan júní sem upp virtist renna fyrir prestinum, sem hafði beðið í klefa sínum í rúmt hálft ár, að honum væru öll sund lokuð. Þriðja júní vísaði hann lögreglu á stað í sumarbústaðahverfi í Sundbylille, skammt frá Frederikssund, þar sem hluti af jarðneskum leifum manneskju fannst. Það var svo á föstudaginn var sem lögregla tilkynnti, að DNA-samanburður hefði sýnt að Maria From Jakobsen væri fundin. Réttarhöldin hefjast 15. október, en Jesper Storm Thygesen, verjandi Gotthard, segist reikna fastlega með að mál prestsins verði svokallað játningamál.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert