99,9% Bandaríkjamanna á sjúkrahúsi óbólusettir

Um 63 prósent Bandaríkjamanna hafa fengið í það minnsta einn …
Um 63 prósent Bandaríkjamanna hafa fengið í það minnsta einn skammt af bóluefni. AFP

99,9 prósent þeirra sem enda á sjúkrahúsi í Bandaríkjunum vegna Covid-19 eru óbólusett og í hópi þeirra sem deyja úr sjúkdómnum er hlutfallið litlu lægra. Af þeim um það bil 853.000 manns sem voru innritaðir á bandarísk sjúkrahús eða sóttu þangað læknishjálp vegna Covid-19 í maímánuði höfðu innan við 1.200 verið bólusettir, eða 0,1 prósent.

Þetta eru niðurstöður nýrrar rannsóknar á vegum AP-fréttastofunnar, sem byggð er á opinberum gögnum frá sjúkrahúsum og heilbrigðisyfirvöldum. Sóttvarnastofnun Bandaríkjanna flaggar nú þessum niðurstöðum í von um að sannfæra enn fleiri um að láta bólusetja sig gegn Covid-19.

Hægt að koma í veg fyrir öll dauðsföll

Af um 18.000 sem dóu úr sjúkdómnum í Bandaríkjunum í maí höfðu 150 verið bólusettir, eða 0,8 prósent. 

Rochelle Walensky, forstjóri Sóttvarnastofnunar Bandaríkjanna, segir bólusetningu gegn veirunni svo skilvirka að fullyrða megi „að hægt væri að koma í veg fyrir nánast hvert einasta dauðsfall, sérstaklega á meðal yngra fólks“.

Um 63 prósent Bandaríkjamanna hafa fengið í það minnsta einn skammt af bóluefni og um 53 prósent teljast fullbólusett. 

Frétt á vef AP

mbl.is